Fjölbreyttur félagsskapur bíladellufólks

Vilhelmína Eva, Villý, með uppáhaldið í baksýn. Hún segir starf …
Vilhelmína Eva, Villý, með uppáhaldið í baksýn. Hún segir starf Live2Cruize hafa dalað í hruninu en sé núna að ná sér aftur á strik. Fólkið í félaginu er á öllum aldri og úr öllum áttum, allt með brennandi áhuga. mbl.is/Golli

Nafnið á einum stærsta félagsskap bílaáhugamanna landsins gæti látið lesendur halda að þar kæmi saman fólk sem minnti helst á Vin Diesel og Michelle Rodriguez í Fast and the Furious-kvikmyndunum, og spanaði um götur á vígalegum tryllitækjum.

Vilhelmína Eva Vilhjálmsdóttir, eða Villý eins og hún er kölluð segir tryllitækin vissulega til staðar en alls ekkert spanað og hópurinn mjög fjölbreyttur.

„Innan raða Live2Cruize má finna alls konar fólk. Á Facebook-síðunni okkar sést allt frá ungum strákum í kringum 15 ára aldurinn upp í fólk á fínum stöðum í þjóðfélaginu komið vel á miðjan aldur. Þessi breiði hópur sameinast um það áhugamál að halda upp á fallega bíla,“ segir Villý og bætir við að mikið sé af konum í félaginu. „Það er mjög góður kjarni af stelpum hjá okkur og ég er ekki frá því að ein stærsti þráðurinn á Facebook-hópnum sé stelpuþráðurinn.“

Byrjaði sem tölvupóstlisti

Villý setti Live2Cruize (www.live2cruize.com) á laggirnar árið 2001 með manni sínum Palla, Steven Páli Rogers. Landslagið á netinu var þá allt annað en í dag og hóf félagsskapurinn göngu sína sem tölvupóstshópur sem stækkaði jafnt og þétt. „Okkur fannst vanta meiri samheldni á meðal bílaáhugafóls og mótorsportfólks á Íslandi, og eins og fólk væri mikið hvað í sínu horni. Stöðugt stækkaði tölvupóstlistinn og fljótlega þróaðist hópurinn út í mjög virkt spjallborð á netinu. Þá kom heimasíðan og loks Live2Cruize Facebook-grúppan,“ segir Villý og bætir við að þegar mest var hafi hátt á 17.000 notendur verið skráðir á spjallborði Live2Cruize. „Síðan þá hefur Facebook-hópurinn tekið mikið yfir en það er hálfgerð synd því á spjallborðinu hefur orðið til mikil fróðleiksnáma og hægt að fletta upp spurningum og svörum um ýmislegt sem tengist bílaviðgerðum og -breytingum.“

Sýna sig og sjá aðra

Kjarninn í starfi Live2Cruize er að meðlimir koma reglulega saman, sýna fínu bílana sína og sjá hvað aðrir hafa verið að dunda sér við í bílskúrnum. Segir Villý að starfið sé virkt allt árið en glæðist mjög á vorin þegar margir taka fram úr bílskúrnum sína uppáhalds bíla sem hafa fengið að vera inni yfir veturinn, í skjóli frá slabbi og tjöru. „Sumir þeir sem koma á þessar samkomur eru svo ungir að þeir eru ekki einu sinni með bílpróf, en strax komnir með töluverða bíladellu. Þetta er skemmtilegt og tækifæri til að skrafa við gott fólk um ýmislegt bílatengt.“

Hefur hópurinn fengið inni í bílastæðahúsum verslunarmiðstöðvanna sem Villý segir koma sér vel ef veður eru óblíð. Kemur hópurinn saman á þriggja vikna fresti árið um kring. Eru þessar samkomur festar vandlega á filmu og myndir af fallegum bílunum settar á Live2Cruize.com.

Villý ítrekar að Live2Cruize sé ekki kappaksturshópur og þeim sem vilja aka hratt sé bent á að heimsækja þar til gerð svæði. Raunar segir hún að félagið hafi lengi beitt sér fyrir bættri aðstöðu fyrir áhugamenn að stunda keppnisakstur á öruggum og lokuðum svæðum og mjög ánægjulegt að sjá hversu mikið aðstaðan hefur batnað á síðastliðnum fimmtán árum. „Mætti þó enn gera betur, fyrir þá sem vilja fá þannig útrás, og leggja meira fjármagn í þær brautir sem fyrir eru.“

Komin upp úr kreppunni

Hópurinn er núna tekinn að eflast á ný eftir að hafa misst ögn þróttinn í hruninu margumtalaða. Villý segir starfsemina hafa verið orðna mjög líflega á hátindi góðærisins. „Allt í einu var fólk farið að láta eftir sér að kaupa tíu milljóna króna bíla á lánum og aukahlutina pöntuðum við einfaldlega með DHL beint frá Japan. Eins og hendi væri veifað hættu allir að panta og kaupa sér nýja bíla. Síðustu tvö árin hefur starfið aftur tekið við sér, og komið meira líf í bílskúrana. Það er einmitt um þetta leyti árs sem margir svipta hulunni af því sem þeir hafa verið að gera við bílana sína yfir veturinn.“

Gaman að sjá hve miklu má ná út úr bílnum

Sjálf á Villý þrjá bíla sem hver þjónar sínum tilgangi. Í aðalhlutverki er Subaru Impreza GT sem búið er að nostra við. Bílinn keypti Villý nýjan með Palla árið 1999. Imprezan er enn í miklu uppáhaldi og seg- ir Villý að bílar á þessum aldri og eldri séu vinsælir á meðal grúskara, enda á margan hátt orðið auðveldara að eiga við þá en nýjustu bílana, svo háþróaðar eru vélarnar orðnar í dag. „Og að sjálfsögðu rennur öll ábyrgð út um leið og einhverju er breytt í bílnum. Eru þeir svo strangir að það má ekki einu sinni setja í keilufilter öðruvísi en að hætta á að ógilda ábyrgðina,“ útskýrir Villý. Meðlimir Live2Cruise dútla við bílana sína á ýmsa vegu, jafnt að innan, utan og undir húddinu. Aðspurð segir Villý að breytingarnar skili sér varla í hærra endursöluverði. „Fyrir flestum okkar held ég að áhugamálið snúist ekki hvað síst um að sjá hve miklu er hægt að ná út úr bílunum borið saman við það hvernig þeir voru nýkomnir af færibandinu. Sumir leggja mikla áherslu á útlitið á meðan aðrir eru hrifnir af að smíða „sleepera“ eins og það er kallað, og strípa bílana af öllum einkennum sem gæfu til kynna að þar væri í raun á ferð hrað- skreytt tryllitæki.“ Aðspurð hvað helst háir fólki með þessa tegund bíladellu segir Villý að gjöld á bíla og íhluti mættu gjarnan vera lægri, en einnig að fram- boðið af alls kyns íhlutum og aukahlutum er takmarkað á Íslandi. „Það væri gaman ef hér væri til búð fyrir sérhæfðar breytingar svip- aðar þeirri sem við heimsóttum á sínum tíma í Bretlandi. Þar var allt til og þurftum við ekki nema að labba um gólf og benda á það sem við vildum fá, og öllu var pakkað í hvelli og sent af stað til Íslands.“

ai@mbl.is

Hópurinn fær að hittast í skjólinu í bílastæðahúsum verslanamiðstöðvanna
Hópurinn fær að hittast í skjólinu í bílastæðahúsum verslanamiðstöðvanna
Það getur verið gaman að virða fyrir sér kaggana, vandlega …
Það getur verið gaman að virða fyrir sér kaggana, vandlega bónaða og fína.
Meðlimir fá útrás fyrir bílaástríðuna með ýmsum hætti.
Meðlimir fá útrás fyrir bílaástríðuna með ýmsum hætti.
Á hittingum Live2Cruize er mikið skrafað.
Á hittingum Live2Cruize er mikið skrafað.
Bílarnir eru af öllum stærðum, gerðum og litum og vel …
Bílarnir eru af öllum stærðum, gerðum og litum og vel um þá hugsað.
Bílarnir eru af öllum stærðum, gerðum og litum og vel …
Bílarnir eru af öllum stærðum, gerðum og litum og vel um þá hugsað.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: