Slysum bifhjólamanna fækkar

Bifhjólamenn á ferð.
Bifhjólamenn á ferð. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Samanlagður fjöldi alvarlegra slasaðra og látinna bifhjólamanna í umferðinni á síðasta ári hefur ekki verið lægri frá árinu 2006.

Gunnar Geir Gunnarsson, sérfræðingur hjá Samgöngustofu og annar þeirra sem tók tölfræðina saman, segir það mat Samgöngustofu að ástæðan kunni að liggja í færri nýskráningum ökuleyfabifhjólamanna. Fyrir vikið séu þeir ökumenn bifhjóla sem eru á götunni reynslumeiri en verið hefur.

„Við vorum með fund með bifhjólamönnum í vikunni þar sem við leituðum skýringa á þessu. Þeir sjálfir töluðu um að veðrið hafi verið leiðinlegt í fyrra. En slíkar skýringar halda ekki alveg þar sem ekki var mikill munur á árinu 2015 annars vegar og tvö árin þar á undan hins vegar hvað veðrið varðar. Við tókum hins vegar eftir því að endurnýjunin hefur verið mjög lítil undanfarin ár sem þýðir að þeir sem eru á bifhjólunum eru að jafnaði eldri og þroskaðri ökumenn. Þar með er að einhverju leyti tekinn út þessi ódrepanleiki sem ungir ökumenn telja sig stundum búa yfir áður en þeir þroskast upp úr því. Því hjálpar þessi litla endurnýjun til í þessum efnum,“ segir Gunnar í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is