Stefnir í mikla þátttöku á Klaustri

Við upphaf þolakstursins á Klaustri í fyrra.
Við upphaf þolakstursins á Klaustri í fyrra. Ljósmynd/Lovísa Sigurjónsdóttir

Búist er við þátttöku allt að 250 ökumanna á torfæruhjólum í þolakstrinum sem kenndur er við Kirkjubæjarklaustur og fer fram þar í sveit næstkomandi laugardag, 28. maí. Mótið hefur vaxið jafnt og þétt frá því það fór fyrst fram árið 2002.

Fastur liður í undirbúningnum fyrir keppnina,  Klaustur Off Road Challenge, er svonefndur skoðunardagur. Þar fá keppendur yfirferð á hjólum sínum svo tryggt verði að þau verði í keppnishæfu ástandi. Auk þess eru hjálmar keppenda eru vandalega yfirfarðir, en lagt er mikið uppúr að öryggi sé haft í fyrirrúmi þegar menn mæta til leiks.

Í ár fór skoðunardagurinn fram í höfuðstöðvum Ölgerðarinnar á Grjóthálsi. Einstaklega góð mæting var, eða alls 150 keppendur. Mikil stemning var í mannskapnum og spenna fyrir komandi átökum næstu helgi.

„Það stefnir allt í að keppnin í ár verði einstök! Veðurspáin lofar góðu og því kjör aðstæður fyrir keppendur til að sýna allar sínar bestu hliðar“ segir Sigurjón Snær Jónsson, formaður VÍK-vélhjólaklúbbsins.

Brautin er um 16 km og tekur 20 – 25 mínútur að keyra einn hring. Keppt er í ýmsum flokkum til að höfða til sem flestra, en alls eru flokkarnir 10. Auk þess fer barnakeppni fram fyrir aðalkeppnina. Keppnin stendur í 6 klukkutímar, frá klukkan 12 til 18.

Boðið er uppá dagskrá frá klukkan 9 að morgni til 11 að kvöldi. Fyrir utan keppnina sjálfa verður hoppukastali fyrir börn auk þess sem hægt verður að gæða sér á grilluðum pylsum og öðru góðgæti.

mbl.is