Toyota söluhæsta bílamerkið

Ekkert lát er á vinsældum Toyota Corolla.
Ekkert lát er á vinsældum Toyota Corolla. mbl.is/Toyota

Volkswagen samsteypan hefur hrist af sér útblásturshneykslið og reyndist við lok fyrri helming ársins stærsti bílaframleiðandi heims. Toyota ræður hins vegar ríkjum þegar söluhæstu bílmerkin er skoðuð.

Hér er um að ræða að greina á milli einstakra módela og eigenda bílmerkjanna. Í ljós kemur, að fleiri bílar eru seldir undir Toyotamerkinu en nokkrir aðrir. Munar þar næstum milljón eintökum á Toyota og VW. Þegar öll bílamerki Volkswagensamsteypunnar - meðal annars Audi, Skoda og Seat - eru meðtalin kemst þýski risinn upp fyrir þann japanska.

Skýringanna á velgengni VW á ný er að leita í Kína en vöxtur þar hefur gert meira en að bæta upp sölufall í Evrópu og Bandaríkjunum. Fyrir árið í heild telja sérfræðingar á bílamarkaði að rúmlega 90 milljónir bíla muni seljast. Tölur fyrir fyrstu sex mánuðina leiða í ljós að 45,8 milljónir bíla voru seldar frá áramótum til júníloka. Er það 3,0% aukning frá fyrra ári.

Samkeppni bílaframleiðenda hefur sennilega aldrei verið meiri og harðari. Af tíu stærstu eru aðeins þrír sem bæta við sig að einhverju marki, tveir standa nokkurn veginn í stað og hjá fimm er um samdrátt að ræða. Til að mynda hefur sala Chevrolet dregist saman um rúm 10% á árinu. Best út koma Jeep með 24% aukningu, Buick með 20,6%, Renault með 14,3%, Mercedes með 11,3%, Audi 7,9% og Honda með 6,6%. Toyota stóð meira og minna í stað á fyrri helmingi ársins.

Taflan hér á eftir sýnir hvernig einstök bílamerki hafa spjarað sig sjálfstætt á árinu. Tölurnar eru í þúsundum eintaka:
1. Toyota 4.187 (+0,4%)
2. VW 3.257 (-1,4%)
3. Ford 3.117 (+3,1%)
4. Nissan 2.438 (+2,0%)
5. Hyundai 2.414 (+1,7%)
6. Honda 2.276 (+6,6%)
7. Chevrolet 1.947 (-10,1%)
8. Kia 1.624 (+3,0%)
9. Renault 1.187 (+14,3%)
10. Mercedes 1.126 (+11,3%)
11. Peugeot 1.054 (-1,0%)
12. BMW 1.006 (+4,2%)
13. Audi 975 (+7,9%)
14. Fiat 790 (-4,8%)
15. Mazda 753 (-0,1%)
16. Suzuki 735 (-5,2%)
17. Jeep 731 (+24,0%)
18. Changan 710 (-1,2%)
19. Buick 681 (+20,6%)
20. Maruti 668 (5,2%)

Hér er árangur einstakra bílasamsteypa á fyrra árshelmingi, tölurnar tákna einnig þúsundir eintaka:
1. VW 5.154
2. Toyota 5.049
3. Renault – Nissan 4.254
4. Hyundai-Kia 4.038
5. GM 3.820
6. Ford 3.185
7. FCA 2.488
8. Honda 2.368
9. PSA 1.701
10. Suzuki 1.402

mbl.is