Bannað að matast og drekka undir stýri

Það dregur athyglina frá umferðinni að borða undir stýri. Þann …
Það dregur athyglina frá umferðinni að borða undir stýri. Þann vonda og hættulega ósið vilja menn uppræta í New Jersey.

Í ríkinu New Jersey vestur í Bandaríkjunum vilja ráðamenn sporna við umferðarslysum sem rakin eru til þess að ökumenn hafa afvegaleiðst vegna athæfis undir stýri.

Í fyrsta sinn í áratug hefur banaslysum í umferðinni fjölgað og hluti þess er skrifaður á athæfi bílstjóra í akstri, svo sem að borða mat og neyta drykkja meðan ekið er.

Nokkrir þingmenn á löggjafarsamkundu New Jersey hafa tekið saman höndum og lagt fram frumvarp sem gera mun ýmsar akstursvenjur refsiverðar, að sögn sjónvarpsstöðvarinnar CNBC.

Samkvæmt nýjum lögum sem þingmennirnir vilja koma í gegn verður bannað „sérhvert athæfi óviðkomandi raunverulegri stjórn bílsins og truflar öruggan akstur hans á opinberum vegum og hraðbrautum“.

Fyrsta brot hefði í för með sér 400 dollara sekt og annað brot 600 dollara. Og verði menn gripnir fyrir slíkt athæfi í þriðja sinn eru viðurlögin 800 dollara sekt og svipting ökuréttinda í þrjá mánuði.

Rúmlega tíund allra dauðsfalla í bandarískri umferð eru skrifuð á afvegaleiddan akstur. Að minnsta kosti 3.179 létu lífið sakir þess í Bandaríkjunum 2014 og segja flytjendur frumvarpsins, að neysla matar og drykkja undir stýri sé alveg jafn hættulegt athæfi og að skrifa og senda smáskilaboð eða lesa á vegakort á ferð.

Í rannsókn Brunel-háskólans í Bretlandi árið 2008 var komist að þeirri niðurstöðu að slysahætta jókst verulega við að ökumenn borðuðu og drukku vökva undir stýri. Hefur breska lögreglan heimild til að sekta ökumenn sem slíkt gera.

Sjónir manna hafa beinst í auknum mæli að afvegaleiddum akstri, ekki síst eftir tilkomu snjallsíma. Dauðsföll í Bandaríkjunum sem rakin voru til þess í fyrra, 2015, jukust um 8% frá árinu áður. Í New Jersey fjölgaði dauðsföllum í umferðinni á fyrri helmingi yfirstandandi árs um 9,6% miðað við sama tímabil í fyrra.

Í Frakklandi gengu lög í gildi í fyrra sem kveða á um allt að 60 evra sekt fyrir að maula samloku eða annan skyndibita undir stýri. Lögunum var ætlað að skerpa á einbeitingu ökumanna. Sömuleiðis er bannað að smyrja sig andlitsfarða undir stýri, lesa vegakort og hlusta á „óheyrilega háa“ tónlist. Loks er bannað að nota heyrnartól og þráðlaus hlustunartæki meðan menn stjórna bíl, mótorhjóli eða reiðhjóli.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: