Myndu fækka slysum með annars konar hraðaeftirliti

Mynd úr safni af vettvangi slyss þar sem hraðakstur kom …
Mynd úr safni af vettvangi slyss þar sem hraðakstur kom við sögu. Camera Obscura vill setja eigin hraðamyndavélar á þá staði þar sem of hraður akstur skapar sannarlega hættu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frá árinu 2009 hefur Camera Obscura rannsakað og beitt sér fyrir þeim möguleika að fá að annast myndavélaeftirlit með hraðakstri hér á landi. Ebenezer Þórarinn Ásgeirsson er í forsvari fyrir fyrirtækið og segir hann að ef tækni og aðferðafræði Camera Obscura hefði verið beitt undanfarin sjö ár hefði mátt koma í veg fyrir 20 banaslys og fækka tjónum í umferðinni um 40.000.

Nálgun Camera Obscura byggist á því að bæði nota fullkomnari tæki við hraðamælingarnar, fjölga myndavélunum verulega frá því sem nú er og einnig að staðsetja myndavélarnar þar sem þær hafa mest áhrif á fækkun slysa.

Staðsetningin ekki leyndarmál

„Við viljum dreifa að lágmarki 100 vélum um allt landið, og miða staðsetningarnar út frá slysakorti Umferðarstofu. Þar hafa slysin verið vandlega skráð og staðsett og vinnan sem þar hefur verið unnin alveg til fyrirmyndar. Ætlunin er ekki að sitja fyrir ökumönnum og verður ekkert leyndarmál hvar myndavélarnar eru staðsettar, enda skilar hraðamyndavélin ekki tilætluðum árangri og fær ökumenn til að hægja hraðann nema þeir viti hvar má eiga von á myndavél.“

Til að setja þennan fjölda myndavéla í samhengi áætlar Ebenezer að í dag séu á Íslandi á bilinu 8-10 hraðamyndavélar og þar af megi vænta að þrjár séu í notkun hverju sinni.

Ebenezer segir núverandi tækni líka hafa þann galla að kalla á tímafreka úrvinnslu mynda, og að löng töf geti verið á milli hraðabrotsins og þess að sýslumaður gefur út sektina. „Þær myndavélar sem við hyggjumst nota greina sjálfkrafa númeraplötu bílsins. Mannsaugað þarf alltaf að fara yfir, en það er hægt að gera með hraði og koma öllum gögnum áleiðis nær tafarlaust. Er sýslumaður þá kominn með þau gögn sem hann þarf næsta dag, frekar en eftir t.d. tvær vikur eins og algengt er nú.“

Ferðamenn stinga af frá sektinni

Þýðir þetta meðal annars að ríkissjóður fer ekki á mis við sektir vegna hraðaksturs ferðamanna sem eru löngu farnir af landi brott þegar sektin er gefin út. „Þær fjárhæðir sem tapast vegna þess að ferðamenn geta stungið af frá hraðasektum eru sennilega meiri en margumtalaður náttúrupassi átti að skila í ríkissjóð.“

Mest munar þó um fækkun slysa. Virtur sérfræðingur gerði útreikninga fyrir Camera Obscura á þeim áhrifum sem ný nálgun í hraðaeftirliti myndi hafa. „Haraldur Sigþórsson er kennari við verkfræðideild HR, hefur unnið með vegagerðinni að staðsetningu núverandi myndavéla og hefur m.a. setið í rannsóknarnefnd samgönguslysa. Hann hafði frjálsar hendur við úttektina og komst að því, með mikilli varkárni í útreikningum, að ná mætti að fækka banaslysum í umferðinni um 30% og alvarlega slösuðum um 42%. Á ákveðnum köflum mætti fækka minniháttar árekstrum um allt að 80%.“

Þjóðhagslegur ávinningur af svona mikilli fækkun slysa myndi mælast í mörgum milljörðum króna árlega. „Reiknað hefur verið að þjóðhagslegur kostnaður vegna umferðarslysa á Íslandi nemi um 22 milljörðum árlega. Við áætlum að kerfi Camera Obscura myndi skila þjóðhagslegum sparnaði upp á 7 milljarða árlega og bara í tilviki LSH væri sparnaðurinn 1,6 milljarðar.“

Ekki króna úr ríkissjóði

Þegar hér er komið sögu er rétt að benda á að ætlunin er að setja myndavélakerfið upp án þess að stjórnvöld taki þátt í kostnaðinum, en þó í nánu samstarfi við Vegagerð, Samgöngustofu og lögregluembættin. Kæmu tekjur Camera Obscura í gegnum hóflegt þjónustugjald sem væri bætt við hverja hraðasekt og greitt af brotamanni. „Við værum heldur ekki að taka að okkur að gefa út sjálfa sektina, enda hvílir það vald áfram hjá sýslumanni,“ segir Ebenezer og bætir því við að gert hafi verið lögfræðiálit sem staðfestir að þetta fyrirkomulag og tekjumódel falli innan ramma laganna. „Fordæmi eru fyrir því í löndum eins og Frakklandi og Þýskalandi að einkaaðilar haldi utan um hraðamyndavélarnar en þar er sá munur á að ríkið borgar þeim fyrir þjónustuna. Í okkar tilviki færi ekki króna úr ríkissjóði í okkar vasa, eða í kostnað við uppsetningu og rekstur á kerfinu.“

Hugmyndin hefur bæði mætt stuðningi og mótstöðu í kerfinu. „Við höfum kynnt hugmyndina fyrir ráðherrum, sem hafa verið mjög hrifnir, en neðar í stjórnsýslunni gætir andstöðu sem virðist oft byggð á misskilningi. Mögulega litast afstaða sumra af því að ef umsjón myndavélanna færðist á okkar hendur gæti það þýtt minni fjárveitingar til þeirra embætta.“

Betri myndavélar

Ebenezer segir hraðamyndavélar Vegagerðarinnar einstaklega lélegan búnað og dýran. Nýrri kynslóðir hraðamyndavéla mæli nákvæmar og betur og séu t.d. ekki háðar því að skynjarar séu settir í malbikið. „Við viljum nota svokallaða LIDAR-tækni sem meðal annars getur greint og gert greinarmun á tveimur bílum sem koma akandi í sömu átt hlið við hlið. Sjö sinnum á sekúndu mælir myndavélin staðsetningu hvers bíls og reiknar út hraðann í samræmi. Getur myndavélin líka áætlað stærð ökutækisins og þannig greint ef t.d. vöruflutningabíll er á ferð sem þarf að lúta minni hámarkshraða.“

Sem dæmi um kosti LIDAR-vélanna þá segir Ebenezer að þær myndavélar sem nú eru í notkun taki aðeins mynd framan á ökutækið. „Fyrri vikið geta ökumenn mótorhjóla ekið eins hratt og þeir vilja fram hjá myndavélunum enda myndin ónothæf. Okkar vélar geta myndað ökutækin bæði að framan og aftan.“

Tæki fyrir lögregluna

Hraðamyndavélar Camera Obscura væru í stöðugu þráðlausu netsambandi og skapar það nýja möguleika í löggæslu. „Hægt er að setja inn svokallaðan rauðan lista af númeraplötum bíla sem hefur verið stolið eða er ekið af eftirlýstu fólki. Þegar bílnum er ekið framhjá myndavélinni fengi lögreglan, ef hún velur að nýta sér tæknina, tilkynningu um hvar bílinn væri á ferðinni,“ útskýrir Ebenezer. „Að hafa sítengdar myndavélar þýðir líka að lögreglan er látin vita strax ef t.d. ökumaður ekur svo hratt að skapar verulega hættu. Ef bíll væri myndaður á 160 km hraða á Sæbrautinni gæti lögreglan vitað af því samstundis, gæfist þá tækifæri til að afstýra frekari hættu og stöðva ökumanninn án tafar. Allt væri þetta ókeypis þjónusta við stjórnvöld og ekki tekið aukalegt gjald fyrir.“

Leggur Ebenezer líka áherslu á að þó að einkaaðili annist eftirlitið sé kerfið gagnsætt og rekjanlegt og ekki hægt að t.d. breyta ljósmyndum, falsa, eða fela til að hlífa vinum og vandamönnum við sektum. „Hins vegar er hægt að setja inn í kerfið hvítan lista yfir númeraplötur tiltekinna bifreiða, eins og sjúkrabíla og lögreglubíla.“

Þá segir Ebenezer að kerfi Camera Obscura ætti ekki að hafa þau áhrif að ökumenn væru sektaðir við hvert fótmál. „Það er staðreynd að á mörgum stöðum á landinu er hámarkshraði minni en aðstæður gefa tilefni til og lítil hætta á slysum þó að bílar fari hraðar en skiltin segja til um. Okkar aðalmarkmið er að afstýra slysunum og einblína á þá kafla þar sem hraður akstur veldur slysum og væri t.d. lítið vit í því að stilla þá upp röð af myndavélum á Reykjanesbrautinni til að nappa þá sem fara yfir 90 km markið. Vitaskuld má síðan aðlaga þau vikmörk sem myndavélin gefur og t.d. einblína á þá sem aka allt of hratt frekar en að sekta þá sem fylgja eðlilegum hraða umferðarinnar.“

Ebenezer Ásgeirsson segir að hið opinbera myndi ekki greiða krónu …
Ebenezer Ásgeirsson segir að hið opinbera myndi ekki greiða krónu fyrir kerfið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina