Keypti sér gulan Skoda

Árdís hefur nostrað við Camaroinn og lagði mikla hugsun í …
Árdís hefur nostrað við Camaroinn og lagði mikla hugsun í litavalið. Hún notaði svokallaða tri-coat sprautun. mbl.is/Árni Sæberg

Árdís Pétursdóttir bílamálari þekkir vel hvað það getur verið erfitt að velja besta litinn á bíl. Hún lauk nýlega við að mála bílinn sinn, gamlan Camaro, og varð rauður litur fyrir valinu –en þó ekki hvaða rauði litur sem er.

„Þetta er rosalega bjartur rauður litur, eins og litur á kókdósum. Ef maður horfir á bílinn í rökkri virkar hann dökk-blóðrauður en í glampandi sól sérðu djúpu sanseringuna,“ segir Árdís en hún notaði svokallaða þriggja laga málningu (e. tri-coat) á bílinn. Eins og nafnið gefur til kynna er bíllinn málaður í þremur lögum og hefur hvert lag áhrif á lokaútkomuna. „Fyrsta lagið gæti verið daufur litur, og yfir hann færi glær litur með ákveðnum tónum og loks glæra yfir. Þessi aðferð gefur svakalega dýpt í litinn en það er bæði dýrara að mála svona og dýrara að gera við enda mun meiri vinna og kallar á meira efni.“

Liturinn getur haft mikið að segja um útlit bílsins, og látið ökutækið skera sig úr fjöldanum eða hverfa inn í fjöldann. „Maður getur jafnvel ekki tekið eftir stórum jeppa sem málaður hefur verið hvítur, og lítill grár bíll verður eiginlega ekki neitt í umferðinni.“

Árdís ætti að vita hvað litir geta dregið að sér mikla athygli en hún ók lengi um á gulum Skoda. „Þetta var stundarbrjálæði. Mér fannst hann mjög ljótur, þoldi ekki gula bíla og ætlaði mér að selja þennan hrylling strax. En þegar ég fór að nota gula bílinn daglega fór ég að venjast litnum og sjá fyndin viðbrögð hjá fólki, og hægt og rólega breyttist viðhorfið hjá mér. Fyrr en varir var ég farin að elska þennan bíl og hugsa að ég eigi alltaf eftir að eiga bíla í sérstökum litum.“

Myndi Árdís óska þess að Íslendingar leyfðu sér meiri litagleði þegar þeir kaupa sér nýja bíla, og finnst henni alveg óhætt að leyfa persónuleikanum að koma fram í bílnum. Bíllinn getur jú líka verið ákveðin speglun á okkar eigin sjálfsmynd. „Þegar við svipumst um í umferðinni er litalvalið ósköp einhæft og sárafáir bílar sem eru spes á litinn. Það er nánast eins og að sjá svartan svan að finna bíl sem er ekki í hversdagslegum lit.“

Rispur og tjara

Árdís segir þó einhæft litavalið mögulega skýrast af vana og eins af aðstæðum á Íslandi. Rispur og tjara sjáist ekki eins vel á daufum og flötum litum á meðan æpandi litir og mjög dökkir geta verið erfiðari.

Síðan má ekki gleyma hvernig liturinn á innréttingunni spilar saman við litinn á lakkinu. Liturinn á sætunum sést greinilega utan frá og hefur áhrif á heildarmyndina. „Ef liturinn að innan er ljótur skiptir engu máli hvernig bíllinn er að utan, útkoman verður alveg hræðileg. Mér finnst t.d. sjálfri að ljósgráar innréttingar geri mjög lítið fyrir útlit bíla. Rauður bíll með hvítu leðri getur hins vegar verið klikkað fallegur, en hafa verður í huga að ekki geta allir bílar borið þessa samsetningu. Þannig yrði það ekkert sérstaklega snoturt að rauður Yaris hefði hvít leðursæti, eða hvað?“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: