Rafmagnaður draumur frá Audi

Audi Q7 e-tron á sér fá líka meðal jeppa þegar …
Audi Q7 e-tron á sér fá líka meðal jeppa þegar aksturseiginleikar eru annars vegar. Hann steinliggur á vegi, tekur U-beygjur á tíkalli og hefur gríðarlegt afl þegar um er beðið. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Um þessar mundir má gera kjarakaup á bílum sem falla undir flokkinn „tvinn-tengibílar“ (sem er afleitt nýyrði) eða „plug-in hybrid“ þar eð þeir falla í svokallaðan núll-tollaflokk.

Í þessu er verið að verðlauna þá sem leggja sitt af mörkum til umverfisverndar með því að kaupa bíla sem ganga líka fyrir rafmagni og það eru þar á meðal miklir hágæðabílar sem fást á glettilega góðu verði, sé mið tekið af því sem fæst fyrir peninginn. Þarna á meðal er e-tron útfærslan á jeppa-flaggskipinu frá Audi – Q7 – en hann hlýtur að teljast með þeim áhugaverðustu í þessum flokki. Verulega vel heppnaður bíll.

Hlaðinn búnaði upp í topp

Þessi kynslóð Audi Q7 hefur þegar verið tekin ítarlega til kostanna á þessum vettvangi og óþarfi að eyða plássi í að endurtaka lofræðuna síðan þá, orð fyrir orð. Í stuttu máli er Q7 gersamlega hlaðinn af búnaði svo ríkulegum að jafnast á við það sem best gerist. Umhverfi ökumanns verður ekki mikið betur úr garði gert enda hafa höfuðstöðvarnar í Ingolstadt löngum lagt á það ríka áherslu að gera innanrými Audi-bíla öðum betur. Það er verulega krefjandi verkefni að ætla að gagnrýna eitt eða neitt sem snýr að ökumanni í Q7. Upplýsingagjöf um allt sem lýtur að akstrinum og bílnum, stillingar á ham bílsins (Comfort fyrir innanbæjarakstur, Dynamic fyrir millibæjarakstur) og svo mætti lengi telja. Þessi jeppi er einfaldlega í fremstu röð þegar kemur að innanrými og aðstöðu ökumanns. Efnisvalið er svo allt til stakrar fyrirmyndar.

Kannski ekki svo jeppalegur?

Í akstri er hreint ekki eins og verið sé að aka jeppa því stýringin gefur næmt viðbragð eins og í fólksbíl og það sem meira er, beygjuradíusinn er svo nettur að hreinum undrum sætir! U-beygjur eru teknar eins og um smábíl væri að ræða og er þá síst fært í stílinn. En fágun borgarjeppans er góðu heilli ekki á kostnað utanvegajeppans því með því að hækka Q7 upp í topp ásamt því að taka drifbúnað hans í gagnið er hér kominn torfærujeppi sem stenst ferlegustu aðstæðum snúninginn. Undirritaður fékk að reyna þetta á torfærusvæði Audi í Suður-Þýskalandi og getur vottað að hann ræður við að keyra í slíkum hliðarhalla (ríflega 45°, segi og skrifa) að undirritaður var um tíma sannfærður um að nú myndi jeppinn velta; þetta þyldi enginn bíll! En hann tók það án þess að blása úr nös.

Það er því ákveðin þversögn fólgin í því að jeppi með slíka torfærueiginleika er satt að segja ekki ýkja jeppalegur að sjá – fyrr en hann er hækkaður upp með loftpúðafjöðruninni. Eldri kynslóðin var óneitanlega jeppalegri á velli, á meðan núverandi bíll er meira eins og stór og veglegur station-bíll að sjá. En það má vel vera að það skipti kaupendur engu, enda vega kostir bílsins miklu þyngra.

Rafmagnaðir eiginleikar Q7 e-tron

Audi Q7 e-tron hefur drægi á rafmagninu einu saman upp á röska 50 kílómetra, það fékk greinarhöfundur að reyna. Slíkt dugar borgarbúum frá degi til dags að heiman og til vinnu, ekki síst ef þeir geta hlaðið bílinn í vinnunni. Það sem meira er, það tekur ekki allan daginn heldur fyllist rafhlaðan frá núlli á einungis tveimur og hálfri klukkustund. Með rafmagnsganginum nást eyðslutölur í blönduðum akstri sem í reynd ætti að vera ógerningur að ná á jeppa sem vegur tvö og hálft tonn og er þessi árangur vegleg fjöður í hnappagat verkfræðinganna hjá Audi. Ekki spillir að þegar ökumann langar að spretta úr spori býr Q7 e-tron yfir gríðarlegu vélarafli þegar dísilmótorinn og rafhlaðan koma saman; þá fæst 600 nm tog sem hendir þessum þunga bíl áfram sem fis væri, og með almennilegu vélarhljóði í ofanálag. Það er í einu orði sagt unun að aka þessum bíl.

Fantagóður valkostur

Það er ómögulegt að segja hversu lengi stjórnvöld hér á landi hafa núllflokkinn við lýði í tollafgreiðslu bíla sem stinga má í samband, en við þá sem eiga til þess pening segi ég: flýtið yður að festa kaup á bíl sem fæst á spottprís undir þessum kringumstæðum. Ég hef áður mært Mercedes-Benz GLE Plug-In Hybrid á þessum vettvangi sem og Porsche Cayenne, og Audi Q7 e-tron er í sama klassa. Þessi jeppi hefur nánast allt til að bera sem þú getur óskað þér í bíl, á verði sem er einstaklega hagstætt miðað við hvað þú færð fyrir peninginn.

jonagnar@mbl.is

Innanstokks í Audi Q7 e-tron er allt eins og best …
Innanstokks í Audi Q7 e-tron er allt eins og best verður á kosið. Það væsir fráleitt um farþega en í þessum bíl er skemmtilegast að vera undir stýri. Það er í einu orði sagt unun að aka þessum bíl, hann er feikivel heppnaður. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Farangursrýmið er 650 lítrar og þrefaldast næstum við niðurfellingu sætanna. …
Farangursrýmið er 650 lítrar og þrefaldast næstum við niðurfellingu sætanna. Hleðslubúnaði er haganlega komið fyrir í tösku. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Vélin í Audi Q7 e-tron gengur göldrum næst en hún …
Vélin í Audi Q7 e-tron gengur göldrum næst en hún fleygir 2,5 tonna fer- líkinu áfram með 600 nm togi og helst samt glettilega sparsöm. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Audi Q7 e-tron á sér fá líka meðal jeppa þegar …
Audi Q7 e-tron á sér fá líka meðal jeppa þegar aksturseiginleikar eru annars vegar. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Audi Q7 e-tron steinliggur á vegi, tekur U-beygjur á tíkalli …
Audi Q7 e-tron steinliggur á vegi, tekur U-beygjur á tíkalli og hefur gríðarlegt afl þegar um er beðið. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Nóg er plássið fyrir aftursætisfarþega í Audi Q7 e-tron.
Nóg er plássið fyrir aftursætisfarþega í Audi Q7 e-tron. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: