Sjálfeknir strætóar á götum Helsinki

Tilraunirnar með sjálfekinn smástrætó í Helsinki munu standa í einn …
Tilraunirnar með sjálfekinn smástrætó í Helsinki munu standa í einn mánuð. Hvert framhaldið verður kemur síðan í ljós.

Hafnar eru tilraunir með litla sjálfekna hópferðabíla á götum finnsku höfuðborgarinnar, Helsinki. Þær munu standa yfir í mánaðartíma í hverfinu Hernesaari í suðurhluta borgarinnar.

Strætisvagnarnir smávöxnu geta borið allt að 12 manns og verður kannað hvernig þeim gengur að spjara sig í almennri umferð með reglulega notkun síðar meir í huga.

Vagnarnir, sem eru af gerðinni Easymile EZ-10, hafa þegar þótt standa sig vel í akstursprófunum í Hollandi og í bænum Vantaa, sem er skammt norður af Helsinki.

Gróskumiklar tilraunir hafa verið gerðar með sjálfaksturstækni í Finnlandi. Skýringin er sú að ólíkt öðrum þjóðum gera Finnar engar kröfur til þess að bílstjóri sé undir stýri í bílum á vegum úti þar í landi. Þar með eru fyrirtæki og rannsóknarhópar sem viljað hafa prófa sjálfekna bíla í akstri laus við pappírsfargan og skrifræði sem stendur þeim fyrir þrifum annars staðar, svo sem til aksturs í Bandaríkjunum og Evrópu.

Borgarumhverfið mun reyna á smástrætóana sem þurfa að halda í við aðra umferð á leið í og úr vinnu eða vegna annarra erinda. Þau farartæki önnur geta verið óútreiknanleg. Vagnarnir geta ekið að hámarki á 40 km/klst. en við prófanirnar verður hraði þeirra takmarkaður við 10 km/klst., sem er óvenju hægt þegar umferð er lítil og óröskuð.

Litið er á sjálfekna strætisvagna sem hugsanlega framlengingu á almannasamgöngum Finnlands; sem tæki til að safna fólki og flytja til áframhaldandi ferða í önnur og afkastameiri samgöngukerfi. Þeir eru ekki hugsaðir til að leysa af hólmi núverandi strætisvagna með bílstjóra.

Í Helsinki eru tvö ár frá því að hafist var handa við samgönguáætlun sem ætlunin er að innleiða á 10 ára tímabili og hefur að markmiði að gera einkabílinn óþarfan í borginni. Í því felst m.a. að setja á fót samgöngukerfi þar sem framboð er í samræmi við eftirspurn. Hefur reynst þrautin þyngri að koma því í kring. Snjallstrætóþjónustunni Kutsuplus var til að mynda hætt eftir eitt ár vegna mikils tilkostnaðar og lítillar notkunar. Vonast er til að litlir sjálfeknir strætisvagnar geti fyllt þá kima sem mannstýrðar samgöngur hafa reynst óskilvirkar til og fjárfrekar.

Tilraunir með sjálfekna bíla standa einnig fyrir dyrum á götum úti í Bretlandi. Þar á meðal munu sjálfeknir vöruflutningabílar verða sendir út á M6-hraðbrautina þar sem umferðarþungi er mikill. Einnig verða litlir almenningsvagnar prófaðir og munu sjálfeknir Volvo-jeppar spreyta sig á vegakerfi Lundúnaborgar.

agas@mbl.is

Tilraunirnar með sjálfekinn smástrætó í Helsinki munu standa í einn …
Tilraunirnar með sjálfekinn smástrætó í Helsinki munu standa í einn mánuð.
Tilraunirnar með sjálfekinn smástrætó í Helsinki munu standa í einn …
Tilraunirnar með sjálfekinn smástrætó í Helsinki munu standa í einn mánuð. Hvert framhaldið verður kemur síðan í ljós.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: