BMW útnefnt til nýsköpunarverðlauna

Nýju ljósin (hægra megin) lýsa betur og gefa betri mynd …
Nýju ljósin (hægra megin) lýsa betur og gefa betri mynd af því sem framundan er.

Samstarfsteymi á vegum þýska bílsmiðsins BMW og ljósaframleiðandans Osram hefur verið útnefnt til Framtíðarverðlauna Þýskalands 2016 fyrir þróun á nýrri laserljósatækni fyrir bíla.

Framtíðarverðlaun Þýskalands eru veitt í viðurkenningarskyni fyrir framúrskarandi nýsköpunarstarf og þróun á sviði tækni, verkfræði og raunvísinda. BMW og Osram hafa þróað saman nýja laserljósatækni fyrir bifreiðar með háum geisla og er búnaðurinn þegar kominn í rafmagnssportbílinn BMW i8 og BMW 7 línuna. BMW hefur í hyggju að innleiða nýju tæknina í fleiri gerðir BMW.

„Nýja ljósatæknin veitir ökumönnum mjög skýra sýn á umhverfið og mun lengra fram á veginn en hefðbundin ljós sem dregur mjög úr slysahættu og eykur þar með öryggi í umferðinni. Auk þessa þróaði samstarfshópurinn nýja tækni sem kemur í veg fyrir mengun að völdum útfjólublárra geisla sem að öðrum kosti getur myndast við bilun, árekstur eða við misheppnaða meðhöndlun á ljósabúnaðinum.

Sjálfbær og árangursrík þróun á laserljósatækni fyrir vegaumferð krefst mikillar nýtni þar sem kostnaður við þróunina og framleiðslu búnaðarins er enn fremur dýr. Þess vegna hafa fyrirtækin ákveðið að vinna áfram að frekari þróun á búnaðinum í þeim tilgangi að lækka kostnað með því að vinna að einföldun á einstökum einingum búnaðarins og samsetningu ljósanna. Samstarf fyrirtækjanna mun halda áfram á þessu sviði þar sem unnið verður með samspili öryggis, þæginda, orkunýtni og hönnunar. Þá hefur Osram einnig þróað fleiri gerðir laserljósa á grundvelli samstarfsins við BMW og verða þau ljós sett bíla frá öðrum framleiðendum,“ segir í tilkynningu.

Forseti Þýskalands, Joachim Gauck, mun afhenda verðlaunin við hátíðlega athöfn í lok nóvember.

Nýju ljósin eru komin í BMW 7-línuna.
Nýju ljósin eru komin í BMW 7-línuna.
mbl.is