Nýr Toyota C-HR án dísilvélar

Toyota C-HR á bás japanska bílrisans á bílasýningunni í París …
Toyota C-HR á bás japanska bílrisans á bílasýningunni í París í dag. AFP

Toyota hefur ákveðið að selja ekki nýja1,5 lítra dísilvél sem japanski bílsmiðurinn hefur verið að þróa fyrir bíla fyrir Evrópumarkað. Fyrsti bíllinn sem átti að fá hana  er C-HR jepplingurinn.

Verður C-HR einungis seldur í Evrópu með bensínvél og sem tvinnbíll. Kemur hann á markað í álfunni seinna í haust.

Háttsettur fulltrúi Toyota sagði á bílasýningunni í París í dag, að áfram væri unnið að þróun vélarinnar fyrir önnur markaðssvæði en Evrópu.

Ákvörðun Toyota skýrist að hluta til í því, að tveir þriðju allra forpantana í C-HR bílinn í Evrópu eru af bílnum í tvinnútgáfunni. Lítil sem engin eftirspurn hefur verið eftir honum með dísilvél þótt á því kunni að verða breytingar eftir að bíllinn er kominn í almenna sölu.

Um fjórðungur allra bíla sem Toyota selur í Evrópu eru knúnir dísilvél. Þegar litið er til allrar heimsbyggðarinnar er hlutur dísilbíla í heildarsölu Toyota rétt tæplega helmingurinn.

Þá hefur markaðshlutdeild dísilbíla í Evrópu lækkað ört í framhaldi við útblásturshneyksli sem kennt ver við Volkswagen. Þannig var hlutdeildin 48,3% í nýliðnum águst miðað við 50,9% í ágúst í fyrra.

mbl.is