Heimsmet á einhjóli

Kevin Scott í vélknúna einhjólinu óvenjulega.
Kevin Scott í vélknúna einhjólinu óvenjulega.

Bretar hafa eignast nýtt hraðamet á landi. Þó ekki allsherjarmet, það stendur enn óhaggað frá árinu 1997 er Thrust SSC flaugarbíllinn náði 1.210 km/klst hraða og rauf hljóðhraðann í leiðinni.

Nýja metið var sett á eins hjóls mótorhjóli sem er næstum jafn gamalt og Thrust SSC farartækið en langt í frá jafn hraðskreitt.

Breskur maður að nafni Kevin Scott smíðaði hjólið sem er 59 tommur með 200 rúmsentímetra körtuvél innan í því, að sögn tímaritsins Road & Track. Situr ökumaður yfir vélinni svona rétt eins og ökumaður venjulegs mótorhjóls gerir.

Aksturinn er þó öllu villtari og trylltari á einhjólinu en einasta leiðin til að stýra því er að halla sér til hliðanna. Þegar gefið er í eða bremsað þá sveiflast ökumaður þess innan í hjólinu rétt eins og hann væri á leið í bakfallslykkju eða heljarstökk. 

Scott segist enn vera að venjast einhjólinu. Kveðst hann ekki hafa náð almennilegum tökum á því enn sem komið er. Það hindraði hann þó ekki í því að slá hraðamet sem Bandaríkjamaður að nafni Kerry McClean setti á sambærilegu hjóli árið 2001.

Það hljóðaði upp á 91,2 km/klst en Scott bætti það í 97,9 km/klst og því er stutt í að 100 km múrinn verði rofinn. Metið féll í október í fyrra en birtist formlega í 2017 útgáfunni af Heimsmetabók Guinness. Myndskeiðin tvö sem fréttinni fylgja gefa góða mynd af þessu óvenjulega vélknúna einhjóli.


mbl.is