Það næst besta

Leikfangabíllinn Porsche 911 GTS RS.
Leikfangabíllinn Porsche 911 GTS RS.

Fyrir þá fjölmörgu sem hafa ekki efni á alvöru Porsche 911 er komið fullkomið tækifæri til að eignast minni en spennandi útgáfu af þessum magnaða sportbíl. 

Danski leikfangaframleiðandinn Lego hefur hafið samstarf við þýska sportbílasmiðinn um framleiðslu á útgáfu af Porsche 911 GTS RS sportbílnum.

Eins og á við um alvöru sportbíla er Porsche Lego framleiddur í takmörkuðu upplagi, og aðeins 10 eintök munu fást af honum í legóbúð hér á landi, að því er segir í tilkynningu. Kostar eintakið 49.900 krónur.

„Porsche Lego bíllinn er ótrúlega líkur alvöru Porsche 911 GTS RS bílnum og sjá má smáatriði eins og innréttinguna, gírkassann, vélina og margt fleira sem er nánast alveg eins og í bílnum í raunveruleikanum. Þá er hinn sérstaki rauðguli litur sem er á Porsche Lego bílnum mjög einkennandi fyrir Porsche 911 GTS RS,“ segir í tilkynningunni.

Alvöru Porsche 911 GTS RS er aflmikill sportbíll með fjögurra lítra bensínvél sem skilar 500 hestöflum. Bíllinn er aðeins 3,3 sekúndur í hundraðið og hámarkshraðinn er 310 km/klst.

Alvöru Porsche 911 GTS RS.
Alvöru Porsche 911 GTS RS.
mbl.is