Gengur í skrokkinn á Porsche Macan

Alfa Romeo Stelvio.
Alfa Romeo Stelvio.

Mikil eftirvænting ríkti vegna frumsýningar nýja jeppans frá Alfa Romeo, Stelvio, í Los Angeles í Kaliforníu í Bandaríkjunum.

Sæti voru fyrir 700 manns í sýningartjaldinu og stundarfjórðungi fyrir athöfnina birtust slökkviliðsmenn á vettvangi og lokuðu því þar sem tjaldið var orðið yfirfullt.

Færri komust því að en vildu til að líta nýja sportjeppann augum. Þeir sem inn komust urðu ekki fyrir vonbrigðum. Kom aðsókn fjölmiðla og annarra á óvart því formlega hafði Alfa Romeo ekki verið með neina sölustarfsemi í Kaliforníu síðustu tuttugu árin eða svo.

Sýndur var bíll í toppútgáfu Stelvio, svonefndri Quadrifoglio-útgáfu, sem einkennist af stórum felgum og viðmóti er minnir á reiðan ítalskan kappakstursbíl. Hlutföll og stærðir minna mjög á Porsche Macans, sem verður helsti keppinauturinn um neytendur, að sögn hins nýja yfirstjórnanda Alfa Romeo, Reid Bigland

„Stelvio kemur til leiks í mikilvægasta stærðarflokki bíla um þessar mundir, flokki meðalstórra jeppa. Porsche Macan hefur verið með einn besta bílinn í flokknum en við verðum með 65 hestöflum öflugri vél í Quadrifoglio heldur en í nokkurri útgáfu Macan. Og við gerum ráð fyrir að hann slái Macan við og reynist hraðskreiðasti fjöldaframleiddi jeppinn á Nürburgring-brautinni,“ segir Bigland.

Ráðgert er að Stelvio komi á götuna á fyrsta fjórðungi næsta árs. Bigland segir að Alfa Romeo muni þó ekki sleppa honum á markað fyrr en skothelt sé að hann standist ströngustu kröfur um gæði og endingu, en hvort tveggja hefur þó vera akkillesarhæll fyrir Alfa Romeo um árabil.
 
Stelvio er númer tvö í röðinni af átta nýjum bílum sem Alfa Romeo hefur heitið að koma með á markað fram til ársins 2022.

Alfa Romeo Stelvio.
Alfa Romeo Stelvio.
Alfa Romeo Stelvio.
Alfa Romeo Stelvio.
mbl.is