Ertu í keng á bak við stýrið?

Sveinn Sveinsson segir gott að stilla bílsæti og stýri í …
Sveinn Sveinsson segir gott að stilla bílsæti og stýri í ákveðinni röð. Ekki má gleyma höfuðpúðanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Næst þegar lesendur staðnæmast á rauðu ljósi ættu þeir að líta í kringum sig og sjá hvernig aðrir ökumenn sitja á bak við stýrið. Sveinn Sveinsson sjúkraþjálfari hjá Gáska segir að mörgum hætti til að sitja í „rækjustellingu“ við akstur.

„Fólk rekur höfuðið fram og sveigir hrygginn svo að vond staða kemst á líkamann og truflar blóðflæðið.“

Að stilla sætið rétt, og gæta að því hvernig setið er, stuðlar ekki aðeins að betri líkamsstöðu heldur hjálpar til að gera aksturinn þægilegri og jafnvel öruggari. Þannig nefnir Sveinn að ef fæturnir eru of beinir í akstri eða hnén of hátt uppi er meiri hætta á áverkum ef ekið er á.

Stillt í réttri röð

Sveinn segir landsmenn mega vera duglegri að fikta í stillingarmöguleikum bílsætanna, og þegar sætið sé stillt sé gagnlegt að gera það eftir ákveðinni röð:

„Fyrst þarf að stilla hæð og fjarlægð sætisins frá fótstigunum, þannig að fæturnir hvíli þægilega á bremsu, bensíngjöf og kúplingu. Fjarlægðin ætti ekki að vera svo mikil að fólk verði að hafa fæturna beina til að ná á fótstigin. Ef högg kemur framan á bílinn er betra að hafa beygju á hnjánum til að dempa höggið sem berst upp úr fótstigunum. Það er líka hættulegt að sitja svo nálægt fótstigunum að lítið pláss sé milli mælaborðs og hnjáa, því þá er hætt við að högg komi á hnén í árekstri.“

Þegar hæðin á sætinu er stillt er líka gott að huga að því að nægilegt rými sé á milli þaks og höfuðs ökumanns. Er æskilegt, að sögn Sveins, að get komið a.m.k. fimm fingrum á milli þaks og efsta punkts höfuðsins.

Bein í baki

Sætisbakið verður líka að stilla þannig að um 90° horn sé á hrygg og mjöðmum, rétt eins og þegar skrifborðsstóllinn er stilltur. Þetta stuðlar að því að fólk sitji með bakið beint og láti hrygginn ekki taka á sig rækjulögunina. „Sumum hættir til að láta sætisbakið halla of langt aftur á bak, og halla sér fram á við til að koma höndunum á stýrið. Það bæði stuðlar að verri líkamsstöðu og eykur líkur á hálsáverka í slysi því fjarlægðin á milli höfuðs og höfuðpúða verður lengri,“ útskýrir Sveinn. „Í árekstri kastast líkaminn fyrst fram, og er gripinn af öryggisbeltinu, en höfuðið kastast fram og svo aftur til baka. Geta slysin orðið verri ef höfuðpúðinn stöðvar ekki hreyfingu höfuðsins aftur á bak svo að meira álag kemur á hryggjarliðina, vöðva og liðbönd. Bæði verður að vera nægilega stutt á milli púðans og höfuðsins og púðinn líka að vera í réttri hæð svo að hann nemi við réttan stað á hnakkanum en ekki við hálsinn.“

Sveinn skýtur því inn að þótt yfirleitt sé lítið hægt að stilla aftursætin sé höfuðpúðinn alltaf stillanlegur. „En það virðist að farþegar séu feimnir við að hækka eða lækka þennan púða og finnist dónalegt að eiga við sætin í annarra manna bíl. Þetta er feimni sem fólk ætti að reyna að losna við enda er mikilvægt fyrir öryggi fólksins í aftursætinu að setja púðann í rétta hæð.“

Herðar í eðlilegri stöðu

Loks verður að færa stýrið á réttan stað. Ætti að miða við að grípa megi þægilega um stýrið með báðum höndum, í „korter yfir níu“ stöðu, án þess að „keyra“ upp herðarnar, og líka án þess að stýrið byrgi sýn á mæla bílsins. „Í akstri verður fólk að gæta þess að halda öxlunum slökum. Okkur hættir mörgum til að lyfta axlargrindinni og keyra hökuna fram, sérstaklega þegar akstursaðstæður gera okkur óróleg, s.s. ef hálka er á vegum eða erfið færð. Sumir stífna þá upp, og jafnvel verður andardrátturinn grunnur og líkaminn alveg uppgefinn þegar loks er komið á áfangastað.“

Sveinn vill líka minna á að fólk stilli hæð bílbeltisins. „Þetta gleymist oft, rétt eins og höfuðpúðinn, en eykur bæði þægindi og öryggi.“

Misjafnt er eftir bíltegundum hversu mikið má fínstilla stöðu ökumanns. Í dýrari bílum má oft stilla lengd setunnar við hnésbót og getur gagnast hávöxnum ökumönnum að fá þann viðbótarstuðning. Þá má stundum hækka eða lækka fótstigin,sem getur hjálpað lágvöxnum að bæta líkamsstöðuna. Einnig má oft stilla mjóbaksstuðninginn, en þar segir Sveinn að fólk hafi misjafnan smekk: sumum þyki mikill mjóbaksstuðningur óþægilegur þótt hann hjálpi til við að halda réttri sveigju á hryggnum.

Sumir bílar passa ekki

Sveinn segir að það geti hreinlega verið að stóll og innrétting sumra bíltegunda henti ekki fólki með ákveðna stærð eða lögun. Sjálfur er Sveinn 190 cm á hæð og þurfti að leita lengi að rétta bílnum þegar kaupa átti smábíl á heimilið. „Það var ekki fyrr en á fjórða bílnum að við fundum ökumannsrými þar sem ég gat komist vel fyrir og setið rétt.“

Verður því að láta fleira ráða bílakaupunum en hvernig bíllinn lítur út að utan eða hversu falleg innréttingin er. „Bíllinn verður líka að passa við líkama þess sem ekur honum, og þeir sem eru í bílahugleiðingum ættu að máta bíla með þetta í huga.“ ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: