Sportbíll til heiðurs konungi svalheitanna

Það var vel til fundið hjá Porsche að framleiða McQueen …
Það var vel til fundið hjá Porsche að framleiða McQueen útgáfu af 911 og eigulegur bíll í meira lagi.

Það er engin nýlunda að spennandi sportbílar renni út úr verksmiðjum Porsche í Stuttgart, en þegar þessi sögulegi framleiðandi útbýr 500 hestafla tæki í takmörkuðu upplagi til heiðurs Steve McQueen sperrir maður engu að síður augu og eyru.

Óhætt er að segja að færri munu komast að en vilja þegar eitt hinna 991 framleiddu eintaka fer á uppboð í næsta mánuði.

Bíllinn sem um ræðir byggist á 2016 árgerðinni af Porsche 911 R sem var með því áhugaverðasta sem kom fram í sportbílaheiminum á síðasta ári. McQueen-útgáfan var aðeins framleidd í einum tilteknum steingráum lit, en það var uppáhaldslitur leikarans sáluga þegar kom að Porsche, með silfruðum röndum á borð við þær sem hann hafði að sama skapi sérstakt dálæti á. Af öðrum þáttum sem hefðu fallið í kramið hjá kappanum – sem var forfallinn bíla- og kappakstursfíkill – má nefna áðurnefnda 500 hestafla vél, sérsmíðaðan 6 gíra kassa og bremsur úr kolefnis-keramiki. Þá eru sérstaklega djúp sæti í McQueen-útfærslunni og því ljóst að gert er ráð fyrir því að eintökin 991 verði ekki eingöngu höfð upp á punt. Þessa bíla á að keyra og það hratt. Ekki má gleyma að við innstigið í dyrunum er að finna áletraða tilvitnun í kappann sjálfan, sem sjá má á mynd hér til hliðar og gæti útlagst sem svo: „Kappakstur er lífið. Allt sem gerist á undan eða á eftir er bara bið.“ Það var og.

Áhugasamir ættu því að hefja skipulegan sparnað því í febrúarmánuði næstkomandi mun uppboðshúsið RM Sotheby's bjóða upp bíl númer 967 af 991. Búist er við metfé fyrir bílinn eins og hefð er fyrir þegar eitthvað á fjórum hjólum með tengingu við Steve McQueen kemst í sölu.

jonagnar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: