Vísbendingar um það sem koma skal

Nissan Vmotion 2.0 hugmyndabíllinn lítur út eins og hann sé …
Nissan Vmotion 2.0 hugmyndabíllinn lítur út eins og hann sé nýkominn úr upptökum á vísindaskáldsögu. Lofar útlitið góðu og ekki skortir heldur metnaðinn á tæknisviðinu. AFP

Helstu bílaframleiðendur heims hófu nýja og kraftmikla sókn á nýju ári með alþjóðlegu sýningunni sem nú stendur yfir í höfuðstað bandarískrar bílaframleiðslu, Detroit í Michiganríki. Þar gat meðal annars að líta nýja og framsækna bíla fyrsta sinni og kynnt er þar til leiks ýmiskonar nýtækni fyrir bíla, ekki hvað síst til sjálfaksturs bíla.

Alls mættu 30 bílsmiðir með ný bílamódel til Detroit en í hinum miklu salarkynnum í Cobo-miðstöðinni í Detroit er að finna alls um 750 ökutæki. Má segja að sýningin gefi vísbendingar um það sem koma skal á árinu á sviði bílaframleiðslu. Lýkur sýningunni næstkomandi sunnudag.

„Sjálfakstur og hárnákvæm tækni eru heit þemu á sýningunni. Bílaframleiðendur freista þess að láta sínar afurðir skera sig úr með því að sækja fram á tæknisviðinu og bjóða upp á einstakar tækniúrlausnir,“ segir Kim Phil-soo prófessor í bílaverkfræði um sýninguna í Detroit.

Cadillac, til dæmis, kynnir þar hálfsjálfvirkan sjálfakstursbúnað, Super Cruise, sem ætlunin er að fari í nýtt flaggskip, stallbakinn CT6 sem væntanlegur er á götuna síðar í janúar. Kjarni kerfisins er augneltir sem með innrauðri myndavél nemur augnhreyfingar og svipbreytingar í andliti ökumanns til að koma í veg fyrir að hann sofni undir stýri. Skynji kerfið að ökumaður sé að líða útaf fer í gagn titringur í bæði sæti og stýrishjóli.

Stallbakurinn snýr aftur

Sportlegir stallbakar virðast vera að komast í tísku en sinn fyrsta slíkan – og það í háum gæðaflokki – kynnti kóreski bílsmiðurinn Kia. Hefur hann fengið nafnið Stinger, er með drif á afturhjólum og kemst í hundraðið úr kyrrstöðu á 5,1 sekúndu og þar af leiðandi snarpasti bíll sem Kia hefur smíðað. Hefur hann hlotið viðurkenningu sem best hannaði bíll sýningarinnar í Detroit. Fleygbakslag og kæliristar á hjólahlífum eru áberandi en heildarjafnvægi í hönnun og útfærslu bílsins er lofað.

„Eftirspurn eftir jeppum hefur aukist undanfarin misseri. Í krafti framþróaðrar tækni njóta jeppar nú kosta stallbaka hvað varðar akstursþægindi,“ segir prófessor Kim. Í þeim geira hafa miklar nýjungar séð dagsins ljós og þýski lúxusbílsmiðurinn Audi bætti þar einum við í Detroit. Þar var hulu svipt af hugmyndajeppanum Q8 með sína aftursveigðu yfirbyggingu. Hann var hannaður með hinn upprunalega Audi Urquattro frá því á níunda áratug síðustu aldar sem fyrirmynd, en hann var þekktur fyrir kraftmikla hönnun og rúmgott innirými. Um er að ræða tengiltvinnbíl með 442 hestafla aflrás. Áætlanir gera ráð fyrir að raðsmíði á Audi Q8 hefjist á næsta ári, 2018.

600 kílómetra rafhlaða

Á sýningunni kynnir rafhlöðudeild Samsung nýja rafgeymatækni fyrir rafbíla. Þar bar hæst nýjan háþéttnigeymi sem dugar til 600 km aksturs á fullri hleðslu. Með enn hraðari hleðslu en áður má fylla þessa rafhlöðu að 80% – eða til 500 km aksturs – á aðeins 20 mínútum, að sögn Samsung. Fyrirtækið er að þróa rafhlöðu þessa og kveðst stefna að fjöldaframleiðslu eftir um fjögur ár. Sem stendur sér Samsung bílaframleiðendum svosem BMW, Ford og Chrysler, fyrir rafbílarafhlöðum.

Bílasýningin í Detroit hefur farið ögn halloka sem fyrsta stóra bílasýning ársins. Ástæðan er sú að á allra síðustu árum hafa bílaframleiðendur fremur kosið að kynna bíla og bílnýjungar á sviði rafeindabúnaðar á árlegu neytendaraftækjasýningunni (CES) sem fram fer í Las Vegas í vikunni á undan sýningunni í Detroit. Lítil breyting varð þar á í ár. En hvað sem því líður þá er heilmikið af góðgæti að finna í bílaborginni að þessu sinni. Má þar nefna nýja arftaka vinsælla bíla á borð við Toyota Camry, BMW 5-seríuna og Ford F-150. Þá stal Kia eiginlega kastljósinu með hinum sportlega Stinger GT. Og svo voru þar hugmyndabílar á hverju strái, bæði afar framandi og einnig svo til fullmótaðir fyrir raðsmíði. Framhjá þeim varð vart litið öðru vísi en að aðra slíka bæri fyrir.

1000 hestafla hugmyndabíll

Af öðrum nýjungum í Detroit má nefna Audi SQ5, hraðskreiðasta Q5-bílinn til þessa, nýja tengiltvinnbílinn BMW 530e iPerformance, sportlega lúxusstallbakinn Lexus LS, hinn 1.000 hestafla hugmyndabíl Project One, ofursportbíl Mercedes, framtíðarbílinn Nissan Vmotion 2.0, nýja útgáfu af litla sportjeppanum Mercedes GLA og síðast en ekki síst míkróbussinn Volkswagen I.D. Buzz sem vakið hefur mikla athygli í Detroit vegna skírskotunar bílsins til VW „rúgbrauðsins“ goðsagnakennda.

Að stofni til höfðar sýningin í Detroit til bandarískra neytenda og meirihluti sýningargripa ber þess merki. Engu að síður er þar fjölda nýrra bíla og hugmyndabíla að sjá sem höfða til evrópskra bílkaupenda einnig.

agas@mbl.is

Mercedes-AMG GT C Edition 50 vakti verðskuldaða athygli.
Mercedes-AMG GT C Edition 50 vakti verðskuldaða athygli. AFP
Mercedes-AMG GT C Edition 50 vakti verðskuldaða athygli.
Mercedes-AMG GT C Edition 50 vakti verðskuldaða athygli. AFP
Volkswagen I.D. Buzz gæti boðað upphaf nýs hippatímabils.
Volkswagen I.D. Buzz gæti boðað upphaf nýs hippatímabils. AFP
Volkswagen I.D. Buzz gæti boðað upphaf nýs hippatímabils.
Volkswagen I.D. Buzz gæti boðað upphaf nýs hippatímabils. AFP
2018 árgerðin af Mercedes GLA. Verður prýði af á vegunum.
2018 árgerðin af Mercedes GLA. Verður prýði af á vegunum. AFP
2018 árgerðin af Lexus LS svíkur ekki sportlegan ættarsvipinn.
2018 árgerðin af Lexus LS svíkur ekki sportlegan ættarsvipinn. AFP
BMW 530e Performance er vafalítið ofarlega á óskalista margra.
BMW 530e Performance er vafalítið ofarlega á óskalista margra. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: