2016 var ár tengiltvinnbílsins

Mitsubishi Outlander var söluhæsti tengiltvinnbíllinn í Evrópu í fyrra, 2016.
Mitsubishi Outlander var söluhæsti tengiltvinnbíllinn í Evrópu í fyrra, 2016.

Á nýliðnu ári jókst sala tengiltvinnbíla í Evrópu um 17% og alls voru nýskráðir 118 þúsund bílar búnir þeirri tækni á árinu. Þrátt fyrir að Mitsubishi Outlander hafi selst í 10 þúsund færri eintökum í fyrra en árið 2015 reyndist hann söluhæsti tengiltvinnbíllinn af öllum en ríflega 21 þúsund nýir bílar af þeirri tegund voru afhentir nýjum eigendum í Evrópu á árinu og svarar það til ríflega 10% markaðshlutdeildar í þessum flokki bíla.

Athygli vekur að 10 vinsælustu bílategundirnar skipta með sér ríflega 82% af tengiltvinn-markaðnum og að tegundirnar 10 koma úr verksmiðjum sex bílaframleiðenda, fimm evrópskra og eins japansks. BMW kemur fjórum tegundum frá sér í mjög mismunandi stærðarflokkum, allt frá hinum litla og lipra i3-Rex og upp í hinn þrælöfluga X5 40e jeppa sem skilar heilum 313 hestöflum.

Þegar sölutölur framleiðenda í Evrópu eru bornar saman við íslenska markaðinn kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós. Outlander hefur sterka stöðu hér á markaðnum og var með ríflega 22% hlutdeild og þá var Golf GTE meira seldur hér heima á nýliðnu ári en Passat GTE. Þá vekur einnig nokkra athygli að 6% markaðshlutdeild hefur V60 PHEV frá Volvo, þrátt fyrir að sá bíll sé ekki fluttur inn til landsins af umboðsaðila framleiðandans. Hins vegar naut XC90 PHEV, flaggskip Brimborgar, mikilla vinsælda og var með 13,4% markaðshlutdeild á tengiltvinnmarkaðnum hér heima og var það mun meira en almennt í Evrópu þar sem hlutdeildin var aðeins 4,6%.

Minni vöxtur í hreinu rafmagni

Á sama tíma og töluverður vöxtur varð í sölu tengiltvinnbíla í Evrópu á árinu 2016 óx sala hreinna rafbíla aðeins um 4% á árinu. Ýmsar getgátur eru uppi um hvað veldur en þar kunna ýmsir þættir að hafa áhrif, meðal annars minni tilslakanir í nokkrum ríkjum þegar kemur að innflutningsgjöldum á umhverfisvæna bíla en einnig sú staðreynd að sífellt fleiri sjá tengiltvinnbíla sem góða lausn þar sem bæði er litið umhverfisverndar og hámarksdrægni.

Á árinu 2016 seldust fleiri eintök af Renault Zoe en nokkrum öðrum rafbíl. Þannig seldust ríflega 21 þúsund eintök af þeirri tegund og jafngildir það um 10% markaðshlutdeild í þessum flokki bíla. Renault Zoe verður nú kynntur fyrir íslenskum bílaáhugamönnum í fyrsta sinn í næsta mánuði en þá tekur BL í sölu nýja útfærslu sem gefin er upp með 400 km drægni. Næst á eftir Renault Zoe kom Nissan Leaf. Sú tegund hefur allar götur frá því að hann kom fyrst á göturnar hérlendis borið höfuð og herðar yfir aðrar tegundir og hafði tegundin ríflega 60% markaðshlutdeild á rafbílamarkaðnum í fyrra. Hæst fór hlutdeildin hinsvegar í 80% árið 2014 en taka verður tillit til að þá var mun minna flutt inn af hreinum rafbílum en nú er gert, svo hratt hefur markaðurinn fyrir þessa bíla orðið til.

Það vekur nokkra athygli þegar litið er á sölutölurnar í Evrópu að það er mun fjölbreyttari flóra framleiðenda sem fyllir listann yfir söluhæstu tegundirnar en á listanum yfir tengiltvinnbílana. Þar komast meðal annars á lista framleiðandi frá Bandaríkjunum, Suður-Kóreu, og tveir frá Frakklandi. Þá vekur einnig eftirtekt að á listanum yfir hreinu rafbílana er aðeins ein tegund sem flokkast meðal jeppa og það er hinn nýi Tesla Model X en fyrstu eintökin af því hugarfóstri Elon Musk og samstarfsmanna hans rann út úr verksmiðjum fyrirtækisins í Fremont í Kaliforníu árið 2015.

ses@mbl.is

Volvo V60 Twin kom á óvart á árinu og var …
Volvo V60 Twin kom á óvart á árinu og var í hópi söluhæstu tengiltvinnbíla hérlendis.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: