Keypti tíunda Land Cruiser jeppann

Jón Pálsson mætti prúðbúinn til að taka við tíunda Land …
Jón Pálsson mætti prúðbúinn til að taka við tíunda Land Cruisernum hjá Toyota á Selfossi.

Það er ekki á hverjum degi að menn kaupa sér Toyota Land Cruiser jeppa. Jón Pálsson  leigubílstjóri á Stúfholtshjáleigu í Ásahreppi er líklega í sérflokki því hann fékk í dag afhentan sinn tíunda Land Cruiser.

„Það var sérstaklega hátíðlegur dagur hjá okkur á Toyota Selfossi þegar Jón Pálsson fékk afhentan tíunda Land Cruiserinn sinn. Jón er fæddur 1951 og hefur starfað sem leigubílstjóri í 13 ár. Hann er einstaklega ljúfur og mikill herramaður,“ segir Hilmar Þór Jónsson sölumaður hjá Toyota á Selfossi.

Fyrst eignaðist Jón Land Cruiser 90 en hann átti tvo svoleiðis áður en hann fékk sér stærri útgáfu, Land Cruiser 120. Þrjá slíka átti hann svo áður en hann stækkaði enn við sig, í 150-útgáfuna. Var það fimmti jeppinn af þeirri gerð sem hann fékk afhentan í dag og sá  tíundi í það heila.

Sjálfur segir Jón að hann myndi ekkert annað velja enda Land Cruiser bílar sem hafa gert það gott í gegnum árin. Treysta megi á þá í hvaða veðri sem er, þjónustan sé frábær og endursöluverðið gott.


 

mbl.is