Margar spennandi tegundir á götuna í ár

Nýjar tegundir rafbíla sem von er á.
Nýjar tegundir rafbíla sem von er á.

Jafnt og þétt hefur fjölgað í hópi bílaframleiðenda sem bjóða upp á sérstakar tegundir tvinn-, tengiltvinn- og hreinna rafbíla og sölutölur af flestum mörkuðum sýna að eftirspurn eftir bílum búnum þeirri tækni er sannarlega til staðar. Sú staðreynd veldur því að á síðustu árum hafa margir bílaframleiðendur sett af stað þróunarvinnu við bíla af þessu tagi og í ár munu margir þeirra kynna til sögunnar afrakstur þeirrar vinnu.

Einna lengst hefur markaðurinn beðið eftir Tesla 3 en gera má ráð fyrir að fyrstu eintökin af því módeli frá verksmiðjum Elon Musk rúlli út úr verksmiðjum fyrirtækisins í lok þessa árs. Verður útgáfan á mun hagstæðara verði en fyrri útgáfur af Model S- og X-bílum fyrirtækisins. Á fjórða hundrað þúsund manns hafa lagt inn pöntun fyrir bílnum nú þegar.

Framtíðarbílar á markað

Þá bíða margir spenntir eftir nýjum bíl frá sprotafyrirtækinu Faraday Future sem staðsett er í Los Angeles en þar er um að ræða jeppa, svokallaðan FF 91, sem vekja mun mikla athygli á götum stórborga heimsins en honum er ætlað að skáka Tesla X bílnum sem kominn er á markað. Fyrirtækið áætlar að koma með fleiri útfærslur rafbíla á markaðinn á komandi árum. Meðal þeirra er hin svokallaða ZERO1-útgáfa sem fyrirtækið kynnti í byrjun árs í fyrra en sá bíll verður búinn 1.000 hestafla (750 kW) vél og mun ná allt að 320 kílómetra hraða á klukkustund.

Kínverskir framleiðendur stórir

En það eru fleiri fyrirtæki að gera sig gildandi á markaðnum. Þannig mun kínverski bílaframleiðandinn BYD (Build Your Dreams) kynna til sögunnar jeppana Yuan og Song en þeir verða báðir í boði í tengiltvinn- og hreinni rafmagnsútgáfu.

Þá er ekki laust við að margir eigendur Nissan Leaf-bílanna, sem farið hafa sigurför um heiminn og meðal annars selst eins og heitar lummur hér á landi, bíði spenntir eftir næstu kynslóð Leaf sem kynnt verður til sögunnar öðruhvorumegin við næstu áramót. Er þar búist við að tilkynnt verði um mun langdrægari bíl en þann sem nú er framleiddur undir þessu nafni og verði honum ætlað að skáka langdrægum bílum á borð við Opel Ampera-e og Renault Zoe.

Þá hyggst Honda einnig hasla sér völl á rafbílamarkaðnum með hinum svokallaða Honda Clarity sem verður rennilegur fjölskyldubíll. ses@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: