Toyota hefur selt 10 milljónir tvinnbíla

Mikið vatn hefur runnið til sjávar við þróun rafmagnstækni bílaframleiðendanna …
Mikið vatn hefur runnið til sjávar við þróun rafmagnstækni bílaframleiðendanna frá því að fyrsti Priusinn var kynntur til sögunnar árið 1997.

Sala hybrid-bíla hjá Toyota hefur aukist mikið á undanförnum árum og er það til marks um aukinn áhuga á bílum búnum þessari tækni að frá því í byrjun maí í fyrra hefur Toyota selt yfir milljón eintök af þeim undir sínu merki. Frá árinu 1997, þegar fyrirtækið kynnti fyrsta Priusinn til sögunnar, eru þeir hins vegar orðnir 10 milljón talsins.

Takeshi Uchiyamada, forstjóri Toyota, sem oft er nefndur faðir Prius-bílsins, segir að þegar fyrirtækið kom með hann á markað fyrir 20 árum hafi enginn vitað hvað fælist í hybrid-tækninni.

Ekki bara nördar

Þeir sem keyrðu þessa bíla voru kallaðir nördar og öðrum nöfnum. Í dag, þökk sé þeim sem snemma gáfu Priusnum séns, hafa hybrid-bílar orðið vinsælli og rutt braut mikillar velgengni frá hinu óþekkta og til þess sem almennt er viðtekið.

Toyota metur það svo að notkun hybrid-bíla frá fyrirtækinu síðustu tvo áratugi, í stað sambærilegra bíla sem einvörðungu ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, hafi heimurinn dregið úr útblæstri koldíoxíðs um 77 milljón tonn og sparað 29 milljónir lítra af eldsneyti.

Kristinn Einarsson segir hybrid-tæknin njóta sívaxandi vinsælda meðal viðskiptavina Toyota …
Kristinn Einarsson segir hybrid-tæknin njóta sívaxandi vinsælda meðal viðskiptavina Toyota hér á landi. mbl.is/Kristinn Magnússon


Í dag býður Toyota á Íslandi sjö tegundir bíla frá japanska bílaframleiðandanum í hybrid-útfærslu og er nýjasta viðbótin í þá flóru er Toyota C-HR en í hybrid útgáfunni eyðir hann frá 3,8 lítrum á hundraði. Kristinn J. Einarsson, sölustjóri hjá Toyota Kauptúni segir að áhuginn á þessari tækni sé mikill.

„Reynslan af tækninni er góð og rafhlöðurnar eru að ná að endast líftíma bílsins. Fólk lítur eðlilega til þess að þessir bílar eyða minna eldsneyti og eru umhverfisvænni. Þeir hafa hins vegar marga aðra góða kosti sem koma meðal annars fram í því að kostnaður við viðhald á bremsubúnaði er minni en á öðrum bílum þar sem tæknibúnaðurinn notar orkuna sem fer í að hægja ferðina til að hlaða inn á batteríið. Þá er tæknin líka orðin þannig að bílarnir geta orðið keyrt á meiri hraða á rafmagninu einu saman en áður var. Það eykur bæði hagkvæmnina og er umhverfisvænna.“

Sífellt fleiri velja Hybrid

Þá segir Kristinn að það sé ekki aðeins í minni bílum á borð við Yaris sem fólk taki hybrid-útfærsluna. Það sé einnig mikil eftirspurn eftir CH-R og Rav-4 með þessari tækni og reyndin sé sú að framleiðandinn anni hreinlega ekki eftirspurn eftir þessum tegundum.

„Fólk er hrifið af þessari tækni enda er hún mjög einföld. Þó að tengiltvinnbílarnir komi mjög vel út þá er auðvitað mjög þægilegt að þurfa ekki að stinga bílnum í samband, tæknibúnaðurinn sér einfaldlega um að hlaða rafgeyminn og bíllinn skiptir svo sjálfvirkt á milli rafmótorsins og bensínvélarinnar, allt eftir því hvað hentar í hverjum aðstæðum.“

ses@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: