Geti fengið orku í sig og á bílinn

N1 mun fyrst koma upp hraðhleðslustaurum á hinum 28 þjónustustöðvum …
N1 mun fyrst koma upp hraðhleðslustaurum á hinum 28 þjónustustöðvum sínum vítt og breytt um landið. Í kjölfarið verður kerfið aukið þar til það nær til allra 95 starfsstöðvanna.

Uppbygging innviða fyrir rafbíla er liður í þeirri stefnu N1 að geta boðið upp á hverja þá orku sem neytendur þurfa.

„Markmið okkar er að þjónustumiðstöðvar félagsins geti verið viðkomustaður þar sem fólk fær orku á bílinn og í sjálft sig í leiðinni,“ segir Guðný Rósa Þorvarðardóttir, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs N1, um uppbyggingu nets hleðslustöðva fyrir rafbíla hringinn í kringum landið.

Hraðhleðsla til Akureyrar

N1 hefur tekið þá stefnu að bjóða upp á rafmagn sem orkugjafa fyrir viðskiptavini sína hringinn í kringum landið og mun byrja í ár með því að bjóða hraðhleðslu á þjónustustöðvum sínum á leið til Akureyrar frá Reykjavík. Markmiðið er að ekki verði meira en 100 kílómetrar á milli hleðslustöðvanna í framtíðinni.

„Eftirspurn eftir rafhleðslu er lítil eins og er en við …
„Eftirspurn eftir rafhleðslu er lítil eins og er en við ætlum að vera tilbúin þegar það breytist,“ segir Guðný Rósa Þorvarðardóttir hjá N1.


Um nokkurra ára verkefni er að ræða en Guðný Rósa segir að nú þegar hafi verið sett upp stöð í Borgarnesi og unnið sé að undirbúningi þess að setja upp stöðvar í Staðarskála og á Blönduósi á næstu mánuðum.

„Hvar borið verður niður í framhaldi af þessu hefur ekki verið fastmótað. Stefnan er að bjóða upp á hraðhleðslustöðvar á öllum þjónustustöðvum N1 en framhaldið ræðst af eftirspurninni og munum við fylgjast grannt með þróun mála. Verkefnið er eðlilega til nokkurra ára. Við munum leggja áherslu á að setja hraðhleðslutæki við þær þjónustustöðvar sem bjóða upp á veitingar, þar sem við teljum það mikinn kost að fólk geti tyllt sér niður og fengið sér að borða á meðan það bíður enda ekki spennandi að bíða í bílnum á meðan hleðsla fer fram. Þá geta ferðalangar komið við og fengið þá orku sem þeir vilja, hvort sem er rafmagn, dísil, bensín eða einhverjir aðrir orkugjafar, og fengið sér kaffisopa eða borðað í leiðinni. Þannig verða samlegðaráhrifin af hleðslustöðvunum meiri. Það tekur um 20 mínútur að hlaða rafgeyma upp í 80% hleðslu og því alveg upplagt að nota tímann til að næra sig einnig,“ segir Guðný Rósa.

Hvað það verður veit nú enginn

Hún bætir því við að þessi uppbygging innviða fyrir rafbíla sé liður í þeirri stefnu N1 að geta boðið á stöðvum sínum í framtíðinni upp á hverja þá orku sem neytendur þurfa, hverjir svo sem orkugjafar framtíðarinnar verða, en hvað verður ofan á í þeim efnum eru ekki allir sammála um.

Láta mun nærri að um eitt þúsund rafbílar séu á götum landsins. „Þeim fjölgar hins vegar hratt og sú þróun mun ráða miklu um hraða uppbyggingarinnar. Eftirspurn eftir rafhleðslu er lítil eins og er en við ætlum að vera tilbúin þegar það breytist. Við teljum mikilvægt að taka þátt í þeirri þróun sem hafin er svo hægt sé að nálgast orku hjá okkur í því formi sem eftirspurn er eftir. Ljóst er að í framtíðinni verður raforka á bíla verðlögð en til þessa höfum við verið að gefa hana á stöðinni í Borgarnesi. Þegar að því kemur verðum við að sjálfsögðu með samkeppnishæft verð,“ segir Guðný Rósa Þorvarðardóttir að lokum.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: