Stór ár framundan í rafvæðingunni

„XC 90 jeppinn selst mjög vel þrátt fyrir að vera …
„XC 90 jeppinn selst mjög vel þrátt fyrir að vera í efsta verðflokki, og síðan fáum við í haust XC 60 sem er næsta stærð fyrir neðan og hann kemur í sambærilegri T8-útgáfu. Það er mjög spennandi mál,“ segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar. mbl.is/Styrmir Kári

Öll þau bílamerki sem Brimborg hefur á sínum snærum hafa einhver áform um frekari sókn inn á rafbílamarkaðinn, þó með mismunandi hætti sé, eins og Egill Jóhannsson forstjóri segir frá.

„Hvað Volvo varðar erum við nú þegar með plug-in bíl, XC 90 jeppann, sem selst mjög vel þrátt fyrir að vera í efsta verðflokki. Síðan fáum við í haust XC 60 sem er næsta stærð fyrir neðan og hann kemur í sambærilegri T8-útgáfu. Það er mjög spennandi mál enda markhópurinn stærri þar og því fleiri sem geta eignast hann. Við finnum fyrir mikilli eftirvæntingu eftir þessum bíl meðal viðskiptavina okkar.“

Egill bætir því við að Volvo hafi sent frá sér tilkynningu á þá leið að fyrirtækið stefni á að senda frá sér hreinan rafbíl árið 2019.

Ford og Mazda ætla sér sneið í rafbílakökunni

Ford er að sögn Egils með mjög stórt prógramm í bígerð sem fyrirtækið kynnti um mitt síðasta ár, og minnti aftur á í haust, á þá leið að fyrirtækið hyggist verja 5 milljörðum Bandaríkjadala í það sem kallast „electrification“ eða rafvæðing á bílaframleiðslu sinni. Það má því ljóst vera að þar á bæ er fólki alvara með fyrirætlunum sínum í þessa átt.

„Bæði eru þar á dagskrá hefðbundnir hybrid-bílar, plug-in hybrid og svo hreinir rafbílar,“ bendir Egill á. „Það má búast við að þessir bílar séu að koma á markaðinn á árunum 2018-2020. Við sjáum hinsvegar ekki fyrir okkur að þessir bílar náist á Evrópumarkað á þessu ári.“

Hinn vinsæli Volvo XC90 T8. Volvo hefur gefið það út …
Hinn vinsæli Volvo XC90 T8. Volvo hefur gefið það út að fyrirtækið stefni á að senda frá sér hreinan rafbíl árið 2019. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Mazda hefur ekki boðað neitt á þessu ári hvað rafmagns- eða blendingsbíla áhrærir, en Egill bendir á að þar á bæ séu menn með annan vinkil á minnkun eldsneytis. „Á næsta ári mun Mazda kynna til sögunnar nýja kynslóð af bensínvélum, vélar knúnar tækni sem er á vissan hátt svipuð díseltækninni, að því leyti að þær kveikja í eldsneytinu án kerta undir miklum þrýstingi.“ Egill bætir því við að núverandi kynslóð véla frá Mazda heiti Skyactive og næsta kynslóð muni kallast Skyactive 2. „Þeir hafa þegar lofað því að minnka eldneytiseyðslu Mazda-bílanna, sem eru með bensínvél, um 30% með þessari tækni. Þetta eru ótrúlegar tölur og þetta eru bílar sem byrja að koma á markaðinn hér í Evrópu um mitt ár 2018. Í kjölfarið er svo stefnan hjá Mazda að rafvæða þessa bíla á árunum 2019, 2020 og áfram, og verða þá fáanlegir bæði sem bensínbílar og sem plug-in hybrid bílar.“

Stóru árin eru í sjónmáli

Að sögn Egils bendir allt til þess að Citroën sé að vinna að rafmagnsbílum, sé mið tekið af þeim hugmyndabílum sem fyrirtækið hefur kynnt á undaförnum misserum. Bæði munu þar vera á ferðinni hreinir rafbílar og tengitvinnbílar. Horft er til áranna 2018 til 2019 hvað þetta varðar. „Sama er uppi á teningnum hjá Peugeot, þar eru rafmagnsbílar og plug-in bílar á leiðinni, og ekkert ólíklegt að þeir verði á ferðinni á svipuðum tíma og áðurnefndir Mazda-bílar.“

Það hafa því allir helstu framleiðendur Brimborgar áform á prjónunum um aukna rafvæðingu bíla sinna og Egill sér fram á vatnaskil áður en langt líður.

„Það lítur út fyrir að árin 2018, 2019 og 2020 verði „stóru árin“ í rafvæðingunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: