Vel lukkuð frumsýning Audi Q5

Nýr Audi Q5 hlaut góðar viðtökur þegar hann var frumsýndur í sýningarsal Audi um liðna helgi. Þetta er önnur kynslóð þessa lúxusjepplings sem kom fyrst á markað árið 2008 og hefur átt  velgengni að fagna.

Hann hefur selst í meira en 1,6 milljónum eintaka um heim allan og var um árabil mesti seldi bíllinn í sínum flokki. „Reynslan af Audi Q5 er afar góð og við fundum fyrir miklum áhuga á nýju kynslóðinni,“ segir Árni Þorsteinsson, sölustjóri Audi í tilkynningu.

„Nýr Q5 er mikið uppfærður hvað varðar tækni, hönnun og aksturseiginleika og einna mest spennandi finnst mér  nýtt quattro-aldrif sem sér fyrir drifþörfinni og getur aftengt afturdrifið þegar það hentar og sparað þannig eldsneyti. Þetta er glæsilegur bíll og vel útbúinn og það var ljóst á frumsýningardaginn að gestirnir voru mjög ánægðir með hann. Frumsýningin lukkaðist virkilega vel og við erum hæstánægð“ segir Árni ennfremur.

Þrjár vélar eru í boði í nýjum Audi Q5. 190 hestafla 2.0 TDI, 286 hestafla 3.0 TDI og 252 hestafla 2.0 TFSI. Afl vélanna hefur aukist um 10%, eða allt að 27 hestöfl, en eldsneytiseyðsla hefur minnkað. Það tekur nýjan Audi Q5 6,3 sekúndur að komast í hundraðið og hámarkshraði er 237 km á klukkustund.

Audi Q5 kostar frá 7.290.000 krónum  og er með fimm ára ábyrgð.

mbl.is