Einangraðir vagnar gera gæfumuninn

Henner Schäfer, Þórður Adolfsson og Daniel Dressler tóku vel á …
Henner Schäfer, Þórður Adolfsson og Daniel Dressler tóku vel á móti gestum á Kempf-sýningunni.

Mikill munur er á að flytja malbik í einangruðum vagni. Ekki þarf að nota eins mikið af olíu til að hita malbikið áður en það er sent af stað og rétt hitastig malbiks við afhendingu þýðir að vegirnir verða betri.

Fyrirtækið Th. Adolfsson hélt á dögunum sýningu á vögnum frá þýska framleiðandanum Kempf. Th. Adolfsson er rótgróið fyrirtæki, stofnað 1984 og hefur frá árinu 1997 flutt inn malarvagna, vörubíla, kranabíla og margvísleg önnur atvinnutæki, m.a. frá Eurotrailer.

Þórður Adolfsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, uppgötvaði vagnana frá Kempf í þýsku fagtímariti. „Það var árið 1999 og voru Kempf-vagnarnir lofaðir í hástert,“ segir Þórður, en Kempf er næststærsti framleiðandi sturtuvagna í Þýskalandi. „Þeir eru m.a. þekktir fyrir að vera mjög sveigjanlegir þegar kemur að því að verða við hvers kyns séróskum viðskiptavinarins og geta klæðskerasaumað vagnana fyrir hvern og einn kaupanda.

Það hefur komið íslenskum kaupendum skemmtilega á óvart hvað sölumenn Kempf eru tilbúnir að verða við öllum óskum þeirra, en margir aðrir framleiðendur eru ekki jafn reiðubúnir að huga að sérþörfum svona lítils markaðar.“

Kempf framleiðir úrval vagna og fer létt með hvers kyns …
Kempf framleiðir úrval vagna og fer létt með hvers kyns séróskir.


Orðið skylda í Evrópu

Á sýningunni, sem haldin var um miðjan mánuðinn, mátti sjá þrjá nýja Kempf-vagna, þar á meðal tvo einangraða vagna hannaða fyrir malbiksflutninga. Þórður segir að um alla Evrópu séu stjórnvöld að festa það í lög að flytja verði malbik á einangruðum vögnum. „Ísland er í dag nær eina landið í Vestur-Evrópu sem leyfir flutning á malbiki í hefðbundnum óeinangruðum vögnum,“ útskýrir hann.
Malbikið kemur sjóðheitt úr malbikunarstöðin og er einangrunin til þess gerð að minnka hitatapið á meðan malbikið er flutt á áfangastað. Segir Þórður að ef ekki sé notaður einangraður vagn á lengri vegalengdum verði að hita malbikið þeim mun meira svo að það hafi rétt hitastig þegar malbikinu er loks sturtað. „Að nota einangraðan vagn þýðir því að spara má það eldsneyti sem fer í að hita malbikið upp að hærra hitastigi, sem bæði dregur úr umhverfisáhrifum og sparar olíukostnað. Um leið er tryggt að malbikið sé sem best og vegirnir þar með betri.“

Langt ferðalag malbiksins

Bendir Þórður á að tvær stærstu malbikunarstöðvar landsins séu á höfuðborgarsvæðinu. Þegar vegir eru lagðir úti á landsbyggðinni er malbikið því flutt um langan veg og mikil kæling á sér stað á leiðinni. „Enda má stundum sjá að þegar malbikinu er loks sturtað hafa myndast kögglar utan í hliðum vagnsins. Þó svo að malbikunarvélin hræri heitara og kaldara malbikinu saman verður þetta ekki nein gæðaniðurlögn. Malbikið nær ekki nógum góðum þéttleika og límingu, og verður viðkvæmara fyrir frostskemmdum. Þannig verður malbikið skelfilega útlítandi á skömmum tíma, öll veðrun mun hraðari og líklega ein helsta skýringin á slæmu ástandi vega að malbikið var ekki við nægilega hátt hitastig þegar það var lagt.“

Mikill munur er á að flytja malbik í einangruðum vagni.
Mikill munur er á að flytja malbik í einangruðum vagni.


Er einangrunin svo mikilvæg fyrir bæði umhverfið og gæði vega að frá og með næstu áramótum tekur t.d gildi í Þýskalandi bann við því að flytja malbik í óeinöngruðum vögnum. „Þar var byrjað á að gera einangraða vagna kröfu þegar malbik var flutt lengri vegalengdir eða fyrir verkefni yfir ákveðinni stærð, en smám saman hafa kröfurnar orðið strangari og nú hefur verið ákveðið að allir malbiksvagnar og pallar verði að vera einangraðir.“

Malbik þarf að vera um 170 °C heitt þegar það er lagt. Að hita malbikið meira en það er hægara sagt en gert og kallar á mikið eldsneyti, en jarðefnin og tjaran sem mynda malbikið eru hituð með olíu í malbikunarstöðvunum. Segir Þórður að eldsneytisnotkunin vaxi með vísisvexti fyrir hverja viðbótargráðu sem malbikið er hitað yfir 170°C.

Verðmunurinn á einangruðum og óeinangruðum malbiksvögnum er ekki svo mikill og þarf því ekki að ráðast í mikla viðbótarfjárfestingu til að stórbæta malbiksflutningana. Dæmigerður óeinangraður vagn frá Kempf kostar um 5,8 milljónir en 6,8 með einangrun.

Þórður segir góðu fréttirnar þær að flutningafyrirtækin á Íslandi hafi tekið það upp hjá sjálfum sér að fjárfesta í einangruðum vögnum, án þess að stjórnvöld hafi þurft að hafa af því afskipti.

Ávinningurinn af einangrun er margvíslegur. Orka sparast og malbikið verður …
Ávinningurinn af einangrun er margvíslegur. Orka sparast og malbikið verður betra.


„Það eru nokkur lítil malbiksflutningafyrirtæki á landinu og þau hafa skynjað að það fæst mun heilbrigðara verklag með einangruðu vögnunum. Þau hafa því skipt óeinangruðum út fyrir einangraða þegar tækjabúnaðurinn hefur verið endurnýjaður, eða ráðgera slíkt.“

Vagnarnir hér ekki eins og í Evrópu

Malar- og malbiksvagnar á Íslandi eru oft frábrugðnir þeim vögnum sem sjást úti í Evrópu og segir Þórður að skýringin sé sú að hér gildi aðrar reglur um heildarþunga miðað við gerð ökutækja.

 „Í Mið-Evrópu er nánast eingöngu um tveggja öxla dráttarbíla að ræða og einn öxullinn með drifhásingu en á Íslandi eru þriggja öxla bílar algengastir með tvær hásingar að aftan með drifi, og fyrir vikið fáum við örlítið meiri heildarþunga,“ útskýrir Þórður. „Einnig er pinninn á dráttarbílunum iðulega hærri svo að auðveldara sé fyrir bílstjórann að athafna sig utan vegar á ójöfnu undirlagi.“

Sérstaða íslensku vagnanna þýddi hins vegar að þegar hrunið skall á var ekki að því hlaupið að finna erlenda kaupendur fyrir vagna sem stóðu óhreyfðir hér á landi. „Geymslusvæði fjármögnunarfyrirtækjanna hafa því verið full af malarvögnum á meðan markaðurinn hefur verið að ná sér á strik, og innflutningurinn er fyrst núna að fara í gang.“

ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: