Þeir einu með lúxusleyfið frá Benz

Eftir því sem erlendum ferðamönnum fjölgar hér á landi fjölgar um leið þeim sem vilja helst aðeins það besta þegar þeir eru á ferð um landið. Þar koma Mercedes-Benz rúturnar frá RAG Import/Export til skjalanna enda er ekkert til sparað við að gera þær sem veglegast úr garði, eins og framkvæmdastjórinn, Rafn Arnar Guðjónsson, segir frá.

En hvernig skyldi það hafa atvikast að Rafn fór í þennan tiltekna bissness og tók til við að útbúa lúxusrútur fyrir vandláta ferðamenn?

„Óvart,“ svarar Rafn án þess að hugsa sig um og hlær um leið. „Þetta var þannig að á sínum tíma var ég beðinn um að finna eins nýlegan hópferðabíl og mögulegt var fyrir ákveðinn kaupanda og sá þá auglýsingu frá þessu verkstæði í Póllandi sem ég er nú í samstarfi við. Eftir því sem ég talaði oftar við tengiliðinn þeim megin leist mér betur og betur á málið og ákvað því að kaupa fyrsta bílinn af honum,“ útskýrir Rafn. „Þegar ég sá svo bílinn tilbúinn var ljóst að gæðin voru einfaldlega allt önnur og betri en við áttum von á og frá og með þeim degi upphófst okkar samstarf. Síðan hef ég selt meira og minna alla framleiðsluna okkar. Fyrir rúmum tveimur árum byrjaði svo nýr kafli í þessu ævintýri, 4x4.“

Einir með leyfi á heimsvísu

Bíllinn sem Rafn segir frá er 21 manns og að sögn Rafns er fyrirtæki hans, RAG, hið eina í heiminum sem hefur leyfi frá Mercedes-Benz til að smíða þessa tilteknu bíla. „Leyfið er frá verksmiðjum Mercedes-Benz og bíllinn þar af leiðandi í ábyrgð sem slíkur. Fólk gerir sér ekki alltaf grein fyrir því að það er fullt af breyttum rútum á markaðnum sem ekki hafa tilskilin leyfi frá framleiðanda og þar af leiðandi er engin ábyrgð í gildi, og ekkert samþykki fyrir hendi fyrir stólum, beltum eða öðru sem verður að vera í topplagi, öryggisins vegna.“

Rafn bendir á að það sé hægara sagt en gert að fá umrætt leyfi og segir í framhaldinu frá því þegar fyrst átti að taka til við að breyta 4x4 bíl. „Við fengum bílinn sendan frá Benz-verksmiðjunum. Hann var kominn upp á stokk til okkar og við um það bil að byrja á honum þegar við fáum símtal frá verksmiðjunum og okkur sagt að við mættum ekki smíða 4x4 bíl. Fyrst þyrfti að fá sérstök leyfi fyrir því og úttektir. Slíkt myndi kosta okkur talsverðan pening, en við ákváðum samt að gera þetta. Við vissum ekki lokaupphæðina þá, sem var eins gott því þá hefðum við líklega aldrei farið út í þetta,“ bætir Rafn við og hlær. „En svo smíðuðum við rútuna og fengum leyfið, og erum þeir einu með löglegt leyfi til þess frá Benz, í heiminum.“

jonagnar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: