Bílasala í loft upp

ABM-turninn í Singapúr.
ABM-turninn í Singapúr.

Verður eðli bílasölu í framtíðinni hið sama og við sölu á svaladrykkjum,  súkkulaðistöngum og kartöfluflögum?  Menn stingi greiðslukortinu í rauf,  ýti á takka og bíll skilar sér niður úr sölustakknum.  Nema bara hvað sjálfsalar bílaumboðanna verða miklu fyrirferðameiri.

Austur í Síngapúr hefur fyrirtæki að nafni Autobahn Motors byggt stærsta bílasjálfssala heims en hann er á 15 hæðum og þar eru einungis seldir lúxusbílar eins og Ferrari, Bentley, Porsche, McLaren,   Lamborghini og Morgan Plus 4 frá 1955 svo einhverjir séu nefndir.

Í stakk þessum eru básar fyrir 60 bíla og vilji líklegur kaupandi skoða einhvern tiltekinn bíl ýtir hann á mynd á snertiskjá og bíllinn skilar sér niður úr stæðunni á jarðhæðina til hans.

Þar sem lóðir eru ekki á hverju strái í Singapúr ákvað Autobahn Motors að fara þessa  leið til að nýta lóð sína sem best. Hliðaráhrifin eru mikil og góð auglýsing sem fyrirtækið hefur hlotið vegna þessa „sjálfsala“ fyrirkomulags.

Hugmyndin gæti einnig reynst hin ágætasta lausn á bílastæðavanda bæja og borga.

Autobahn Motors er ekki fyrsta bílasalan sem fer þessa leið. Bandaríska bílasalan Carvana hefur farið þsesa turnaleið þar í landi. Nú síðast í mars sl. opnaði fyrirtækið til að mynda átta hæða turn í San Antonio í Texas sem rúmar allt að 30 bíla.

mbl.is