Innkalla Mercedes Benz E-class

Neytendastofu hefur borist tilkynning frá Bílaumboðinu Öskju ehf. um innköllun á sex bifreiðum af gerðinni Mercedes Benz E-Class. Ástæða innköllunarinnar er sú að á E-class bifreiðum sem koma með taxi-merki frá framleiðanda er möguleiki á því að líming í merki losni.

Askja ehf. hefur nú þegar haft samband við viðeigandi bifreiðaeigendur, að því er segir í tilkynningu á vef Neytendastofu.

Neytendastofa hvetur bifreiðaeigendur til að fylgjast vel með hvort að verið sé að innkalla þeirra bifreiðar og hafa samband við Bílaumboðið Öskju ehf ef þeir eru í vafa.

mbl.is