Sandero slær öllum við

Dacia Sandero í hefðbundinni útgáfu til hægri og sem smájepplingurinn …
Dacia Sandero í hefðbundinni útgáfu til hægri og sem smájepplingurinn Sandero Stepway til vinstri.

Bílar seljast með misjöfnum hætti eftir löndum. Við sögðum frá því í gær, að Volkswagen Golf hafi verið söluhæsti bíll júnímánaðar og það sem af væri ári í Noregi. Í Frakklandi komst hins vegar aðeins einn þýskur bíll á í hóp 10 söluhæstu.

Söluhæsti bíllinn í Frakklandi fyrri helming ársins er Dacia Sandero, borgarbíll eða smájeppi frá dótturfyrirtæki Renault sem sérhæfir sig í smíði ódýrari bíla sem hafa tekið miklum breytingum í ár til aukinna gæða.

Af Sandero seldust 29.848 eintök frá áramótum til júníloka, sem er 11% aukning frá í fyrra en þá var bíll þessi í áttunda sæti. Í öðru sæti er Peugeot 208 með 24.002 eintök eða í sama sæti og í fyrra. Þriðji varð svo Peugeot 2008 með 23.723 eintök.

Í næstu sætum eru Renault Clio, Citroen C3, Renault Captur, Peugeot 3008, Dacia Duster, Peugeot 308 og í tíunda sæti er svo fyrsti útlenski bíllinn, Volkswagen Polo, en af honum keyptu Frakkar 12.515 eintök á árinu.

Söluhæsta einstaka bílmerkið var Renault með 88.818 einkabíla. Rétt á eftir í öðru sæti varð Peugeot með 86.456 bíla, Dacia í þriðja sæti með 53.913 eintök og Citroen í fjórða sæti með 53.823 bíla.

VW er svo í fimmta sæti með 34.575 bíla, Toyota í sjötta með 28.812, Ford í sjöunda með 21.600 bíla, Opel í áttunda með 16.496 bíla, Audi í því níunda með 15.633 eintök og loks Nissan í tíunda sæti með 14.390 bíla.

Hér er einungis um að ræða sölu fjölskyldubíla en sömu módel geta einnig verið seld til fyrirtækjaflota og þannig raðast upp í annarri röð en að framan greinir.

Í heildina námu nýskráningar fyrri helming ársins í Frakklandi 1.135.281 eintökum bíla sem er 3% aukning frá sama tímabili fyrir ári.  Hlutdeild einkabíla í heildinni nam 46,5% eða 527.530 eintök.

mbl.is