Áttu með sér víðtækt leynilegt samstarf

Þýskir bílsmiðir áttu með sér leynilegt samstarf um árabil.
Þýskir bílsmiðir áttu með sér leynilegt samstarf um árabil. AFP

Þýsku bílsmiðirnir Volkswagen, Audi, Porsche, BMW og Daimler áttu með sér leynilegt samstarf frá því á tíunda áratug síðustu aldar um ýmis mál, svo sem mengun frá dísilbílum.

Þessu heldur þýska vikuritið Der Spiegel fram í dag en Volkswagen gerði þýskum samkeppnisyfirvöldum grein fyrir samstarfinu í framhaldi af rannsókn á svindli VW sem snerist um að hugbúnaður var falin í stjórntölvum dísilbíla VW til að blekkja mælitæki við mengunarmælingar. Viðurkenndi fyrirtækið 2015 að hafa stundað umfangsmikið svindl af því tagi á heimsvísu og stendur frammi fyrir að þurfa borga milljarðatugi í bætur.  

„Þýsku bílaframleiðendurnir stofnuðu á laun vinnuhópa um tækni í bílum þeirra, um kostnað, um birgja, um markaði, um áætlanir og jafnvel um meðferð mengunar dísilbíla sinna,“ segir Der Spiegel í umfjöllun sinni um mál þetta. Það segist hafa komist yfir bréf VW til yfirvalda.

Slíkt samstarf allra stóru bílaframleiðenda landsins gæti hafa falið í sér aðgerðir er „stönguðust á við lög um hringamyndun og samkeppni“ segir í bréfi VW, að sögn tímaritsins.

Talsmaður Volkswagen - sem á bæði Audi og Porsche - sagði við AFP-fréttstofuna í dag að samsteypan myndi ekki tjá sig um „vangaveltur og getgátur“. Sömuleiðis neituðu fulltrúar
BMW og Daimler að tjá sig um fréttirnar. Loks sagði talsmaður þýskra samkeppnisyfirvalda að þau gætu ekki tjáð sig um grein Spiegel.

mbl.is