Hætta óvænt smíði rafbíls

Mercedes B-class Electric Drive hefur selst grimmt í Noregi en þeir sem horfðu væntingaraugum til þessa ágæta bíls verða að snúa sér að öðrum módelum. Ástæðan er sú að framleiðslu hans hefur verið hætt, aðeins tveimur árum eftir að hann kom fyrst á götuna.

Skýringarnar á þessari ákvörðun liggja ekki á lausu en þó liggur fyrir að Daimler hefur fjárfest stórum í EQ-rafbílaverkefninu og rafbílatækni næstu kynslóðar rafbíla.

Frá því B-class rafbíllinn kom til sögunnar í hitteðfyrra hafa 4.300 eintök verið seld í Noregi. Á fyrri helmingi yfirstandandi árs voru nýskráðir 1092 B-class bílar þar í landi, þar af 944 Electric Drive módel. Er þar um að ræða söluhæsta Mercedes-módelið í Noregi í ár.

Mercedes-Benz hafði áður boðað að fram til ársins 2025 sendi fyrirtækið frá sér 10 mismunandi módel rafbíla, allt frá smábílum upp í stóra lúxusbíla og jeppa. Nú hefur þeim áætlunum verið flýtt og segir að þessir bílar verði allir komnir á götuna 2022.

Sá fyrsti er væntanlegur 2019 og byggir á þróunarbílnum Concept EQ. Hann er á stærð við núverandi GLC-módelið. Drægi hans verður um 500 kílómetrar og hann verður með drif á öllum fjórum hjólum. Stefnt er að því að hann verði ekki dýrari en GLC-bíllinn.

mbl.is