Sumarið með rólegasta móti hjá mótorhjólaverslununum

Þó margir hafi áhuga virðist sem fáir hafi látið verða …
Þó margir hafi áhuga virðist sem fáir hafi látið verða af því að kaupa sér hjól í sumar. Mikið er spurt um stærstu og kröftugustu hjólin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Seljendur höfðu bundið vonir við að mótorhjólasalan myndi glæðast í sumar, eftir mörg mögur ár allt frá bankahruni. Því miður virðist sölukippurinn sem beðið var eftir ekki hafa orðið að veruleika og segja fulltrúar verslananna að ýmsir þættir, þar á meðal veðurfar, hafi sett strik í reikninginn.

Eyþór Örlygsson, framkvæmdastjóri Reykjavik Motor Center, RMC, segir sterk tengsl á milli veðurfars og mótorhjólasölu. Júní, sem oft hefur verið góður sölumánuður, hafi verið bæði blautur og kaldur. „Í júlí viðraði betur, en þá voru þeir sem hugsanlega hefðu viljað kaupa sér hjól farnir í sumarfrí með fjölskyldunni,“ segir hann en RMC selur einkum hjól frá BMW. „Vorið lofaði góðu og margir sem spekúleruðu í að ráðast í kaup á hjóli en svo olli júní vonbrigðum og tilfinningin í ár svipuð og í fyrra þegar allir voru uppteknir við að horfa á EM í fótbolta og lítið með hugann við mótorhjólakaup.“

Eyþór segir þumalputtareglu í mótorhjólageiranum að fyrst glæðist bílasalan, þvínæst sala á ferðavögnum, og loks að mótorhjólasalan tekur við sér. Ef marka má auglýsingarnar í blöðunum virðist bílasala og ferðavagnasala komin á góðan skrið og því vonandi ekki langt að bíða eftir að mótorhjólasalan verði lífleg. Er ekki öll von úti enn því einn besti tími ársins fyrir ferðahjól er að ganga í garð. „Það er ekki fyrr en í ágúst og september að hálendið fer að verða almennilega opið fyrir þannig hjól, allur snjór farinn og jörðin orðin almennilega þurr. Þá er mótorhjólafólkið búið að taka sín sumarfrí og klappa makanum, og upplagt að skjótast í mótorhjólaferð um landið. Persónulega þykja mér fyrsta og önnur vikan í september skemmtilegasti tíminn til að lenda í ævintýrum á mínu ferðahjóli.“

Margir láta sig dreyma

Hallgrímur Ólafsson er sölufulltrúi fyrir Ducati á Íslandi hjá Bike Cave. Í apríl var gerður samningur við Ducati í Danmörku og hægt að panta hjól þaðan, en til að halda yfirbyggingu í lágmarki eru hjól ekki flutt inn til þess eins að hafa til sýnis. Hefur Ducati ekki átt fulltrúa hér á landi síðan 2008 þegar mótorhjólaumboðið Saga fór á hausinn. Hallgrímur segir ekkert hjól hafa selst í sumar, en ágætishreyfing hafi veirð á aukahlutum og varahlutum og versluninni berist fjölmargar fyrirspurnir frá fólki sem dreymir um að eignast öflugt ítalskt mótorhjól. „Díavelinn er alltaf heitur, Monsterinn sömuleiðis vinsæll og margir sem vilja eignast Skrambler en síðastnefnda hjólið hefur selst mjög vel í Skandinavíu og var þriðja söluhæsta mótorhjólið í Svíþjóð í fyrra.“

Af fyrirspurnunum má greina að Íslendingar vilja umfram allt kröftug hjól. „Áhuginn er mestur á mótorhjólunum með stærstu vélunum og meira spurt um 1.300 kúbíka hjól en t.d. 900 kúbíka, þó að síðarnefnda stærðin væri vafalítið notendavænni.“

Hjólin frá Ducati eru ekki þau ódýrustu á markaðinum enda vönduð smíði og útlitið ekki amalegt. Hallgrímur segir að myndi eflaust hjálpa til að bæta söluna ef stjórnvöld lækkuðu innflutningsgjöld, og upplagt að skoða þann möguleika nú þegar mikið er rætt um þéttingu byggðar, þyngingu umferðar, nýtingu bílastæða, og útblástur samgöngutækja. „Það felst samfélagslegur ávinningur í aukinni notkun mótorhjóla því þau nota minna eldsneyti og menga minna en margir bílar, létta á umferðinni og þurfa mun minna pláss í bílastæði.

Væri eðlilegt að selja 1.400 hjól

Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Bernhard, tekur í sama streng, og segir óheppilegt hve mikill munur getur verið á innflutningsgjöldum mótorhjóla eftir stærð og orkugjafa. „Ef við skoðum rafmagnsvespurnar þá bera þær engan toll og engan virðisaukaskatt, og kröfur um tryggingar og sérstök ökuskírteini ekki mjög íþyngjandi. Á meðan er sambærileg skellinaðra að bera 30% toll, 24% virðisaukaskatt, og allt aðrar tryggingar. Útkoman getur verið verðmunur á rafmagnsvespum, skellinöðrum og stærri hjólum sem hinn almenni neytandi á erfitt með að skilja,“ segir Gunnar en eins og kunnugt er flytur Bernhard in mótorhjól frá Honda.

Segir Gunnar að gjöld hins opinbera skekki alla verðmyndun töluvert. „Væri ákjósanlegt ef tollurinn væri að hámarki 10-15% á hvers kyns mótorhjól svo að fólk hefði kost á hagkvæmu farartæki til að komast greiðlega á milli staða. Til dæmis gætu 125 kúbíka vespur hentað vel í þéttbýli enda praktísk í notkun og um leið skemmtilegur ferðamáti.“

Að sögn Gunnars hafa selst um 250 ný hjól í landinu öllu það sem af er þessu ári, eða álíka mörg og í fyrra. Hann nefnir til samanburðar að fjöldi nýrra seldra bíla á þessu ári sé kominn upp í 16.000. „Og sala nýrra mótorhjóla er langt frá því að vera í eðlilegu hlutfalli við fjölda mótorhjóla í notkun í landinu. Ætla má að á bilinu 7-8.000 mótorhjól séu til á Íslandi og væri ekki óeðlilegt ef endurnýjunarhlutfallið væri 20%, sem myndi þýða um 1.400 seld hjól árlega.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: