Tesla hefur afhendingu alþýðubílsins Model 3

Tesla Model 3 svipar til Model S að útliti en …
Tesla Model 3 svipar til Model S að útliti en er ögn smærri og einfaldari í sniðum.

Bandaríski rafbílasmiðurinn Tesla hóf um síðustu mánaðamót að afhenda kaupendum fyrstu raðsmíðuðu eintökin af bílnum Model 3, sem lýst er sem bíl fjöldans.

Langflest fyrstu eintakanna sem runnu af færiböndum bílsmiðjunnar í Fremont í Kaliforníu fóru til starfsmanna Tesla.

Meginmarkmið Tesla með Model 3 er að bylta bílamarkaði sem hingað til hefur stjórnast af bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, að sögn forstjórans Elons Musks. Sagði hann bílinn verða á allra færi að kaupa. Við hönnun hans var frá fyrsta degi gengið út frá því að um bíl af billegri gerðinni yrði að ræða. Er hann til að mynda helmingi ódýrari í kaupum en forverarnir Model S og Model X, sem einungis er á færi auðugra að kaupa.

„Besti bíllinn miðað við verð“

Mælaborðið er óhefðbundið í alþýðubílnum Tesla Model 3.
Mælaborðið er óhefðbundið í alþýðubílnum Tesla Model 3.


Musk lýsti föstudeginum 28. júlí sem einum hinum mikilvægasta í sögu Tesla því þá rann fyrsta eintakið af Model 3 af færibandinu og fleiri fylgdu svo í kjölfarið. Hann velti sér upp úr athöfninni við þetta tækifæri en hann ók fyrsta bílnum út á sýningarpall við verksmiðjuhúsið. „Þetta er besti bíllinn miðað við verð, hvort sem um er að ræða rafbíl eða bensínbíl,“ sagði hann.

Í Bandaríkjunum mun Tesla Model 3 kosta 35.000 dollara kominn á götuna en á því verði höfðar hann til fjöldans. Framleiðslan fer rólega af stað, um eitt hundrað verða smíðaðir í ágúst og 1.500 í september. Takmarkið er að afköstin nemi um 5.000 á viku þegar nær dregur áramótum og Musk segist vona að 10.000 eintök renni á viku úr smiðjunni á næsta ári. Eftirspurnin eftir Model 3 virðist ekki vandamál því rúmlega hálf milljón manna hefur skráð sig fyrir eintaki og greitt inn á kaupin. Flestar þessara pantana eru frá bandarískum neytendum.

350 km drægi

Tesla Model 3 er ætlað að rugga bílamarkaðnum í Bandaríkjunum.
Tesla Model 3 er ætlað að rugga bílamarkaðnum í Bandaríkjunum.


Að útliti svipar línum Model 3 til útlits Model S en nýi bíllinn er aðeins minni og línur einfaldari. Rafgeymir hans býður upp á 350 kílómetra drægi á fullri hleðslu, að sögn Tesla. Rafgeymir fyrir lengri akstur er valkostur en hækkar verð bílsins. Spyrna bílsins er nokkuð sportleg en hann nær 100 km/klst ferð úr kyrrstöðu á innan við sex sekúndum.

Rétt eins og forverarnir er Model 3 hreinn rafbíll og tölvubúnaður hans býður upp á hálfgildings sjálfakstur. Ekkert hefðbundið mælaborð er í honum, heldur stór tölvuskjár, snertiskjár, sem veitir allar upplýsingar um gangverk bíls, afköst og akstursumhverfi.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: