Áfram þróar BMW dísilvélar

Nýjasta gerð dísilvélar fyrir stóra fólksbíla BMW.
Nýjasta gerð dísilvélar fyrir stóra fólksbíla BMW.

Þýski bílsmiðurinn BMW ætlar að halda áfram dísilvéla en fyrirtækið telur að þær muni áfram gegna mikilvægu hlutverki í bílasamgöngum. Munu vélarnar uppfylla alla ströngustu mengunarstaðla heims, þar á meðal Euro 6.

Frá þessu skýrði Harald Krüger, stjórnarformaður BMW, á ráðstefnu þýska innanríkisráðuneytisins um framtíð dísils sem orkugjafa.

„Okkur er fullkomlega ljóst að sjálfbærni er mikilvæg bílasamgöngum framtíðarinnar. Á því sviði stendur BMW í fremstu röð. Við vorum fyrsti bílaframleiðandinn í Þýskalandi sem einsetti sér að þróa til fulls rafmagntæknina sem orkugjafa í bílum og höfum sett á markað fleiri slíka bíla en nokkur annar stór bílaframleiðandi í heiminum. Hins vegar er rafmagnið alls ekki eina græna lausnin. Fullkomnari og háþróaðri dísilvélar munu einnig gegna mikilvægu hlutverki í þróun sjálfbærra bílasamganga. Þegar litið er til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum verður jafnframt að horfa til þess hvaða árangur hefur náðst í þróun dísilvéla. Þegar horft er til ýmissa efna sem bílvélar losa og eru skaðleg umhverfinu kemur í ljós að bestu dísilvélarnar losa jafn lítið eða jafnvel minna af skaðlegum efnum en nýju bensínvélarnar. Þetta á sérstaklega við um smáagnir, kolvetni og kolsýring. Þessi efni eru nú orðin svo lítil í útblæstri dísilvéla að þær hafa ekki lengur neikvæð áhrif á loftgæði. Af þessum ástæðum leggur BMW ríka áherslu á hreinskipta og opna umræðu sem grundvallist á staðreyndum og vísindalegum rannsóknum áður en teknar verði afdrifaríkar ákvarðanir,“ sagði Krüger.

Hann staðhæfði til dæmis, að dísilvélar BMW Group losuðu nú þegar að meðaltali um 40% minna af nituroxíði en dísilvélar annarra bílaframleiðenda í Þýskalandi. Það hafi umhverfisstofnun Þýskalands staðfest í apríl sl. Sagði hann vélar BMW uppfylla nú þegar bæði staðla Euro 5 og 6.

Krüger hélt því og fram, að að umræðan um endalok dísilvélarinnar hafi stórskaðað umræður um umhverfisvernd og komið óverðskulduðu óorði á bestu dísiltæknina auk þess að skapa óöryggi meðal milljóna eigenda bíla með dísilvél. „Bestu dísilvélarnar byggja á mjög þróaðri tækni og eru mjög hreinar með tilliti til losunar. Við höfum alla tíð lagt áherslu á að tækni BMW Group við þróun véla með tilliti til útblásturs sé allt annars eðlis en annarra bílaframleiðenda. Við höfnum þar að auki gjörsamlega öllum dylgjum þess efnis að í bílum BMW sé að finna ólöglegan búnað í útblásturskerfi þeirra.“

mbl.is