Sjö ára snáði undir stýri

Í miðborg Óslóar. Konungshöllin í bakgrunni.
Í miðborg Óslóar. Konungshöllin í bakgrunni. mbl.is/Golli

Lögreglan í Ósló er því vön að þurfa hafa afskipti af ökumönnum í borgarlandinu en eitt slíkt atvik í síðustu viku var þó í óvenjulegra lagi.

Undir stýri bílsins sat nefnilega aðeins sjö ára piltungur sem tekið hafði fjölskyldubílinn í óleyfi og farið í ferðalag, að sögn norska útvarpsins, NRK. Segir það strák hafa tekið lyklana að bílnum heima hjá sér, ræst bílinn vandræðalaust og síðan ekið af stað.

Talsmaður Óslóarlögreglunnar, Steinar Husvik, staðfestir við útvarpið að piltungurinn hafi ekið bílnum nokkra kílómetra vegalengd áður en hann ók í fang lögreglunnar.

Það voru nágrannar hans sem gerðu lögreglu viðvart um uppátækið. Handtók hún piltinn og ók honum til baka heim til sín. Hvorki sakaði ökumanninn unga né bílinn í ferðalaginu fágæta. Foreldrar hans voru beðnir að fela betur kveikjulykla bílsins fyrir strák í framtíðinni.

mbl.is