Kínverskur jeppi á leið til Evrópu

Kínverjar hafa verið með áform um að komast með fólksbíla sína inn á evrópskan bílamarkað. Spurningin er hvort öðrum framleiðendum standi ógn af þeim.

Bílaframleiðandinn Chery hefur verið að kynna nýjan jeppa að nafni Chery Exceed en hann verður með sömu valkostum í aflrásinni og Hyundai Ioniq og verður fáanlegur ýmist sem tvinnbíll, tengiltvinnbíll eða hreinn rafbíll. Er hann ekki al-kínverskur með öllu því framleiðendurnir hafa tryggt sér ýmsa íhluti í bílinn frá evrópskum fyrirtækjum í framleiðslu bílparta.

Hingað til hefur heimamarkaðurinn í Kína tekið við næstum öllum kínverskum bílum sem framleiddir hafa verið undanfarin ár og því verið lítill afgangur til útflutnings.  
 
Fyrirtækið reyndi að selja annan jeppa, Qorous, í Evrópu en hann var fyrst kynntur til sögunnar á bílasýningunni í Genf 2013. Athygli vakti að hann hlaut fimm stjörnu einkunn á árekstrarprófunum Euro NCAP í september sama ár. Er hann fyrsti kínverski bíllinn til að fá toppeinkunn mælingarstöðvarinnar og sló hann reyndar öllum öðrum módelum við að öryggi sem prófuð voru hjá Euro NCAP 2013.

Þrátt fyrir það hlaut bíllinn ekki miklar undirtektir er Chery freistaði þess að selja hann til Evrópu. Fór og svo að fyrirtækið tilkynnti að þeim tilraunum væri hætt og engin áform væru um að selja bíla til Evrópu í fyrirsjáanlegri framtíð.

Lúxusbíll eður ei

Fyrirsjáanleg framtíð er teygjanlegt hugtak og er Chery sagt íhuga aðra tilraun til að brjótast inn á Evrópumarkaðinn og nú með Exceed TX. Hann mun um síðir sjá dagsins ljós í mörgum útgáfum. Af honum verður tengiltvinnbíllinn snarpastur, kemst á 100 km ferð úr kyrrstöðu á undir sex sekúndum og topphraðinn er 198 km/klst. Rafgeymana má hlaða að 80% hleðslu á hálftíma og að fullu á fjórum tímum frá hefðbundnum hleðslustaur.

Það fer svo eftir frágangi bílsins og hvort hann verður smíðaður sem lúxusbíll eða öllu fábrotnari hvort hann keppir á markað við BMW X3 og Mercedes-Benz GLC, eða Toyota RAV4, Ford Kuga og líka bíla.

mbl.is