Kona dregur langt

Gert er ráð fyrir því að rafútgáfan af Hyundai Kona verði búin rafgeymum sem gætu dugað til rúmlega 500 kílómetra drægi. Hér er um að ræða fyrsta hreina rafjeppann.

Bíllinn kemur á markað upp úr áramótum í Evrópu og verður hægt að velja milli tveggja útgáfa, annars vegar með 39,2 kWh geymi og hins vegar 64,2 kílóvattstunda.
    
Stærri geymirinn mun gefa möguleika á rúmlega 500 km drægi við bestu skilyrði. Hann er ögn stærri en rafgeymar Tesla Model 3 og Opel Ampera-E.

Rafmótor Hyundai Kona mun skila 150 kílóvöttum eða 204 hestöflum um hvorn geymirinn er að ræða.

Afköst hleðslubúnaðar bílsins hefur verið aukinn úr 6,6 kW í 7,2 kW sem ætti að flýta fyrir hleðslu við heimataug.

mbl.is