Ók hringinn um Ísland til að sporna við drægisfælni

Frá hringferð Stuarts eftir endilangri strandlengju Bretlands. Hleðslustöðvum fjölgar með …
Frá hringferð Stuarts eftir endilangri strandlengju Bretlands. Hleðslustöðvum fjölgar með hverju árinu sem einfaldar langferðir.

Bretinn Stuart McBain ók eftir endilangri strandlengju Bretlands á Teslu og endurtók leikinn á rafmagns-Kia á hringveginum á Íslandi. Hann hefur dálæti á rafmagnsbílum en grunar að vetnið verði líklega ofan á, á endanum.

Stuart McBain hefur óbilandi trú á þeim vaxtarmöguleikum sem felast í aukinni nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Hann stýrir breska endurskoðunarfyrirtækinu Stuart McBain Ltd. og fæst í dag einkum við að aðstoða efnilega orkusprota við leit að fjármagni. „Fyrirtækið hóf göngu sína fyrir tæpum aldarfjórðungi sem almenn endurskoðunarskrifstofa, en í tímans rás hefur áherslan færst æ meira yfir á að þjónusta með ýmsum hætti fyrirtæki sem fást við nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og hjálpa fólki með góðar hugmyndir að afla sér bæði opinberra styrkja og stuðnings frá fjárfestum til að fara með hugmyndir sínar á næsta stig.“

Stuart er drifinn áfram af miklum áhuga á framtíð orkumála og segir hann ljóst að innnan skamms muni verða mikil sprenging í eftirspurn eftir hreinni og endurnýjanlegri orku. „Það gengur hratt á aðrar orkulindir og er t.d. stutt síðan Háskólinn í Liverpool birti skýrslu sem komst að þeirri niðurstöðu að olíubirgðir í Norðursjó verði uppurnar að sjö árum liðnum. Mikill skellur er handan við hornið þar sem olía á eftir að verða mjög dýr og ákaflega kostnaðarsamt að ná henni upp úr jörðu.“

Mun vetnið trompa rafmagnið?

Á Branding Energy mun Stuart flytja erindi um orkuskipti í samgöngum. Hann er mikill áhugamaður um rafmagnsbíla og var á þessu ári fyrsti maðurinn til að aka eftir endilangri strandlengju Bretlands í rafmagnsbíl. „Ég tel að bílaframleiðsla sé í dag á sama stað og myndbandaframleiðendur þegar VHS og Betamax kepptu um yfirráðin. Miklar framfarir hafa orðið í framleiðslu rafmagnsbíla en mig grunar að á endanum kunni vetnistæknin að verða ofan á.“

Stuart segir bæði rafmagns- og vetnisbíla hafa sína kosti og galla. „Vetnið er auðvelt að framleiða með rafgreiningu og hægt að geyma og flytja, en rafmagnið kallar á að geyma mikið magn orku á rafhlöðum til að anna eftirspurn á álagstímum. Rétt eins og bensín er vetnið eldfimt, en það sama má segja um efnin sem notuð eru í rafhlöður og möguleiki á sprengingu eða að eldur blossi upp hvort sem rafmagns- eða vetnisbíll lendir í árekstri.“

Bílaframleiðendur virðast um þessar mundir hallast meira að rafbílatækninni en Stuart segir að vetnisvæðing ætti þó að liggja beinast við. „Maður myndi halda að það væri minni áskorun fyrir bílaframleiðendur að breyta sprengihreyfilsvélum sínum til að láta þær ganga fyrir vetni, og halda öllum öðrum hlutum bílsins óbreyttum, frekar en að þróa alveg nýjar gerðir bíla sem eru hvorki með gírskiptingu, drifskafti eða mörgu öðru sem bílaframleiðendur hafa fyrir löngu fullkomnað.“

Ekur hringveginn á rafmagnsbíl


Þó að Stuart vilji veðja á vetnið er hann mjög hrifinn af rafmagnsbílum, eins og hann sannaði með ferð sinni um Bretland á Tesla-bifreið. Það ferðalag tók 23 daga og ók Stuart um 3.900 mílna leið, eða rösklega 5.100 kílómetra. Hann hyggst nú endurtaka leikinn á Íslandi og fara hringveginn á litlum rafmagnsbíl og verða vinur hans og móðir með í för. Stewart gengur tvennt til með hringferðinni um landið: „Í fyrsta lagi er Ísland mitt uppáhaldsland og ég fagna því að fá tækifæri til að skoða meira af Íslandi. Í öðru lagi þá vil ég reyna að sporna við þeirri umræðu sem sést æ oftar í fjölmiðlum um að rafmagnsbílar hafi of stutt drægi.“

Stuart ók um Bretland á bíl með 300 mílna (480 kílómetra) drægi en mun fara hringveginn á Kia Soul með 130 mílna (210 kílómetra) drægi. „Veðurfar og vegahalli getur síðan minnkað drægið enn frekar og því látum við duga að aka 90 mílur (145 kílómetra) í senn áður en við stingum bílnum aftur í samband.“

Að mati Stuarts er ástæðulaust að hafa miklar áhyggjur af drægi rafmagnsbíla. Hleðslustöðvum fari hratt fjölgandi og drægi nýjustu bílanna sé meira en nóg fyrir venjuleg ferðalög. „Fólk bendir á að aka megi díselbíl allt að 800 mílur eða 1.200 kílómetra á einum tanki, en það er miklu lengri vegalengd en ég myndi kæra mig um að ferðast á einum degi. Fyrir mig er meira en nóg að aka 2-300 mílur og svo hlaða bílinn yfir nóttu áður en haldið er áfram með rafhlöðurnar fullar.“ ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: