Rúm milljón á mánuði

Kínverjar eru hrifnir af VW Tiguan.
Kínverjar eru hrifnir af VW Tiguan.

Volkswagen-samsteypan afhenti nýjum eigendum samtals 1,01 milljón bifreiða af öllum stærðum og gerðum í nýliðnum septembermánuði. Hefur VW aldrei í sögu sinni afhent yfir milljón bíla í einum og sama mánuðinum.

Er hér um að ræða 6,6% aukningu frá í september í fyrra og eru það einkum jeppar sem drifið hafa sölu bíla frá VW-samsteypunni.

Í metmánuðinum voru 404.500 farartæki afhent kaupendum í Evrópu en þó var um samdrátt að ræða upp á 3,3% á heimamarkaðinum í Þýskalandi, öflugasta staka markaði VW í Ervópu.

Í Norður-Ameríku var aukningin 13,5% og 64,8% í Suður-Ameríku en þrátt fyrir mikla aukningu er ekki um háar sölutölur að ræða, eða 85.900 í fyrrnefndu álfunni og 47.800 í hinni.
 
VW afhenti fleiri bíla á Asíumarkaði en nokkrum öðrum, eða alls 436.700 farartæki. Er það 6,1% aukning frá í fyrra. Þar af munar mest um 406.500 bíla sem afhentir voru kínverskum kaupendum í september. Uppistaðan í þeim fjölda eru Terramont og Tiguan frá Volkswagen, Audi A4L og Skoda Kodiaq.

Í heildarfjölda hinna afhentu bíla voru 593.700 fólksbílar frá Volkswagen, 178.400 frá Audi, 112.900 frá Skoda, 39.800 frá Seat, 20.800 frá Porsche, 44.600 frá VW atvinnubílum, 10.600 frá MAN og 8.000 Scania rútur- og vörubílar. 

mbl.is