Sviptir Pólstjörnuna hulunni

Pólstjörnudeild Volvo svipti í dag hulunni af langdrægum tveggja dyra aflmiklum tengiltvinnbíl, Polestar 1.

Um er að ræða meðalstóran bíl sem verður smíðaður í Kína fyrir alla markaði heims en hann er væntanlegur á götuna árið 2019. Aflrásin mun skila 600 hestöflum og aka má allt að 150 km á rafgeymunum einum. Það segir fyrirtækið vera mesta drægi tvinnbíls á rafmagninu einu.  

Hafin verður smíði á Polestar 1 í borginni Chengdu í vesturhluta Kína um mitt ár 2019 og þá í takmörkuðu upplagi, eða 500 eintökum á ári. Í kjölfarið mun svo sigla hreinn rafbíll, stallbakurinn Polestar 2, og síðar jeppinn Polestar 3.

Hægt er að skrá sig fyrir þessum bíl frá og með deginum í dag. Verðmiðinn hefur ekki verið birtur en fróðir telja að hann muni kosta á bilinu 130 - 150 þúsund evrur.

mbl.is