Áhlaup á BMW vegna hringamyndunar

Höfuðstöðvar BMW í München.
Höfuðstöðvar BMW í München.

Fulltrúar skrifstofu ESB sem fjallar um hringamyndun í viðskiptum réðust inn í höfuðstöðvar þýska bílsmiðsins BMW vegna rannsóknar á meintri umfangsmikilli hringamyndun í bílaviðskiptum.

Af hálfu Evrópusambandsins (ESB) var fregna af áhlaupinu og sambandið vill ekki staðfesta gegn hvaða bílaframleiðanda áhlaupið beindist. Aðeins var staðfest í dag, að það hefði átt sér stað í fyrradag, miðvikudag.

„Við getum staðfest að 16. október 2017 var fyrirvaralaust framin rannsókn í stöðvum bílaframleiðanda í Þýskalandi. Rannsóknin tengist grunsemdum að nokkrir þýskir bílsmiðir kunni að hafa brotið gegn lögum um auðhringavarnir er setja skorður í viðskiptum,“ segir í tilkynningu ESB.

Þar er því bætt við að Daimler, móðurfélag Mercedes Benz og fleiri bílafyrirtækja, eigi í fullu samstarfi við samkeppnisyfirvöld ESB vegna rannsóknarinnar og geti því átt von á að mildar verði tekið á þætti þess í verðsamráðinu.

Málið þykir koma illa við þýska bílaframleiðslu sem hefur átt undir högg að sækja vegna dísilhneykslisins svonefnda sem kennt er við Volkswagen.

„Rannsóknin tengist kvörtunum gegn fimm bílafyrirtækjum sem opinberaðar voru í fjölmiðlum í júlí,“ segir í tilkynningu sem BMW sendi frá sér í dag en þar var áhlaupið á höfuðstöðvarnar í München staðfest.

Þýska vikuritið Der Spiegel afhjúpaði í júlí sl. mein leynilegt samstarf Volkswagen, Audi, Porsche, BMW og Daimler um bílþróun, smíði og aðföng. Meðal annars hefðu fyrirtækin borið saman bækur sínar hvernig mæta mætti síharðnandi reglum um losun hættulegra efna frá dísilbílum. Hafði þetta samstarf staðið í um aldarfjórðung er Spiegel afhjúpaði það.

mbl.is