Fjórir af tíu stóðust ekki ástandsskoðun

Margir bílanna frá Olsen Bil í Grimstad hafa verið sendir …
Margir bílanna frá Olsen Bil í Grimstad hafa verið sendir til niðurrifs, jafnvel beint af götunni. Ljósmynd/Wikipedia CC Commons

Við úttekt á bílaflota bílasölunnar Olsen Bil í Grimstad syðst í Noregi hefur komið í ljós, að fjórir af hverjum tíu stóðust ekki skoðun og númeraplötur voru klipptar af 75 bílum.

Næstum helmingur bílanna 983 sem teknir voru til skoðunar féll á prófinu og stóðst ekki kröfur sem gerðar eru til bíla til aksturs í umferðinni.

Fulltrúar norsku vegamálastofnunarinnar segjast áhyggjufullir vegna þessa. Slæmt sé að fyrirtæki séu að reyna að selja almenningi bíla sem í raun eigi alls ekki heima á vegunum að óbreyttu.

Nú í haust varaði stofnunin almenning við sem kynni að hafa keypt bíl hjá Olsen Bil og ekki farið með hann í skoðun; slíkir gripir kynnu að vera lífshættulegir. Leitar hún með aðstoð lögreglu að öllum bílum sem seldir hafa verið hjá Olsen Bil undanfarin ár til að ganga úr skugga um hvort þeir séu í raun ökufærir.

Olsen Bil fór á hausinn í fyrrahaust og í millitíðinni hafa bílar frá sölunni verið leitaðir uppi og skoðaðir vegna gruns um að meðal annars hafi ekki verið gert við þá samkvæmt réttri forskrift. Á það til að mynda við um tjónabíla sem bílasalan seldi sem ótjónaða.

Alls hefur verið náð til 758 bíla og reyndust 200 þeirra í lagi en afgangurinn var sendur til niðurrifs, kemur fram í staðarblaðinu Agderposten.

Eigandi Olsen Bil er grunaður um spillingu, fjárhagslegt undanskot, stórfelld skilasvik og skjalafölsun. Hann hefur verið í gæsluvarðhaldi frá 1. dsember í fyrra. Að sögn blaðsins Verdens Gang mun bílasalan hafa selt um 3.000 notaða bíla síðustu tíu árin. Leikur grunur á að margir þeirra geti verið hættulegir.

mbl.is