X-Class kemur til landsins í janúar

Síðan fyrst spurðist út að Daimler AG, framleiðandi Mercedes-Benz, hygðist senda frá sér pallbíl – alvöru-pick-up bíl – hefur talsverð eftirvænting ríkt meðal bílaáhugamanna, bæði hér heima sem og erlendis.

Nú eru herlegheitin loks væntanleg og ber pallbíllinn frá Benz nafnið X-Class. Bíllinn verður kynntur hér á landi um miðjan janúarmánuð og er alvörupallbíll með karakter Mercedes-Benz, segir Sveinn Kristjánsson hjá bílaumboðinu Öskju en hann starfar þar sem vörustjóri hjá Mercedes-Benz fólksbílum á Íslandi. X-Class fellur að sögn í millistærðarflokk pallbíla, þann flokk sem í daglegu tali kallast „mid-sized pick-up truck.“

Eins og að keyra fólksbíl

„Við prófuðum X-Class pallbílinn erlendis fyrir skemmstu og bárum saman við alla helstu keppinautana. Að þeim prófunum loknum var það okkar mat að X-Class er í akstri langlíkastur því að keyra fólksbíl, svo fágaður og meðfærilegur er hann,“ útskýrir Sveinn um nýja pallbílinn. „Hann er einfaldlega mjög þægilegur og góður í akstri sem fólksbíll og fer því fullt eins vel á malbiki sem á verri vegum þar sem torfærugetu er þörf. Þetta er í rauninni ekki eins og að keyra jeppa. Innréttingin er einnig talsvert veglegri og meira í hana lagt en venjan er yfirleitt með pallbíla.“

Mikið hefur verið ritað og rætt um það hve mikil líkindi séu með Nissan Navarra og Mercedes-Benz X-Class, enda er nýi Benzinn sprottinn upp úr samstarfi þarna á milli. Sveinn bendir aftur á móti á að Benz hafi í kjölfarið þróað X-Class í talsvert aðrar áttir og nú þegar fullbúinn pallbíllinn blasir við séu sameiginlegir þættir heldur fáir.

„Það er búið að breyta grindinni, hann er lengri og breiðari, ennfremur er hann hærri, pallurinn er stærri og svo framvegis. Það eru í raun ekki nema þrír hlutir sem þú getur fengið hjá BL [Nissan-umboðinu á Íslandi] sem passa á X-Classinn. Það eru hurðarhúnninn á skotthlerann, festingin fyrir hliðarspeglana og svo hurðarhúnninn á dyrnar. Ekkert annað af Nissan Navarra passar á Benzinn því það er búið að breyta honum algerlega.“

Fáanlegur í þremur útfærslum

Að sögn Sveins verður X-Class fáanlegur í þremur mismunandi útfærslum þegar hann kemur á markaðinn. „Það má eiginlega segja að þarna aðgreini hann sig frá öðrum pallbílum sem í boði eru. Almennt ertu að velja þér aukabúnað á bílinn, hlut fyrir hlut, en X-Classinn kemur í þremur grunn-útfærslum. Þær heita Pure, Progressive og Power. Það er alltaf sami undirvagn, vél og gírkassi, þetta snýr bara að aukabúnaðinum. Þannig er Power-útfærslan til að mynda komin með viðarlæðningu og leður í mælaborðið, LED-ljós, stærri felgur, króm í kringum þokuljósin og þar fram eftir götunum. Hann er orðinn talsvert vígalegri að sjá.“

Aðspurður segir Sveinn að verðið komi til með að vera frá 7,3 milljónum og upp í um það bil 10, 3 milljónir fyrir veglegustu og best búnu útgáfuna. „X-Class er bíll sem getur dregið þrjú og hálft tonn, og tekur 1.100 kíló á pallinn.“

Sveinn bætir því við að pallurinn sé nægilega breiður milli hjóla að Euro-palletta komist þar fyrir á breiddina.

Dísilvélar fyrir togið

Sveinn nefnir ennfremur að vélarnar sem verði í boði séu 2,3 lítra díselvélar, fjögurra strokka. „Þær verða síðar fáanlegar sex strokka og bíllinn verður í boði bæði beinskiptur og sjálfskiptur. Að afli er vélin 190 hestöfl.“

Þá verður X-Class búinn svokölluðu „Engageable 4-Matic“ drifi sem þýðir að hann er allajafna afturhjóladrifinn en ökumaður getur virkjað 4-Matic fjórhjóladrif þegar tilefni er að hans mati til þess.

Loks má geta þess að hús á pallinn á X-Class verður fáanlegt sem aukabúnaður, sem og box ofan í pallinn og einnig lok ofan á hann. Lokið lyftist aftur á móti ekki upp eins og vélarhlíf gerir venjulega heldur rúllast það inn og er því með meðfærilegasta móti, eins og Sveinn útskýrir.

„Hér er búið að heimfæra Benz-upplifunina á pallbílinn og við hlökkum til að kynna X-Class fyrir Íslendingum um miðjan janúar.

jonagnar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: