Meðal nýrra rafbíla sem vakið geta mikla forvitni á árinu er hreini rafbíllinn frá lúxusbíladeild Toyota, Lexus UX 300e. Hingað til hefur Toyota verið í fylkingarbrjósti þróunar tvinn- og tengiltvinnbíla en í haust verður skrefið í rafbílavæðingunni stigið til fulls.
Háþróaður rafmótor skilar 150 kW (204 DIN hö.) og 300 Nm togi nánast tafarlaust. Litíumjóna 54,3 kílóvattstunda rafhlaða Lexus UX 300e felur í sér 380 kílómetra drægi.
Þessi fyrsti rafbíll Lexus nær hundraðinu úr kyrrstöðu á 7,5 sekúndum.
Hámarkshraði nemur 160 km/klst. og vitskuld losar bíllinn ekkert gróðurhúsaloft í akstri.
„Nýr UX 300e er með innanrými sem sækir innblástur til japanska hugtaksins „engawa“, þar sem mörk þess sem er utan á og að innan renna snurðulaust saman. Þessi einstaka nálgun veitir þér betri tilfinningu fyrir ytra byrði þessa nýja rafbíls og auðveldar til muna akstur á þröngum götum í þéttbýli. Ökumannsrýmið er afslappað og snyrtilegt og allir mikilvægir eiginleikar og allir stjórnrofar eru innan seilingar (m.a. sniðugur handarpúði á miðstokknum með innbyggðum stjórnrofum fyrir hljómtæki),“ segir á heimasíðu Lexus.
Vekur það athygli að þrátt fyrir að þurfa það ekki til mótorkælingar er framgrillið á UX 300e óbreytt frá framenda Lexusbíla sem brúka jarðefnaeldsneyti.
Lexus hefur lagt mikið upp úr þægindum og öryggi ökumanns og farþega. Þannig er UX 300e útbúinn Lexus Safety System + sem inniheldur árekstrarviðvörunarkerfi; akreinarakningu sem heldur bílnum á beinu brautinni; sjálfvirkt háljósakerfi til að hjálpa ökumannni að koma betur auga á gangandi vegfarendur og bíla í myrkri; umferðarskiltaaðstoð sem greinir umferðarskilti; og ratsjárhraðastilli.