Árið 1974 gekk ungur verkfræðingur að nafni Steven Sasson á fund yfirmanna sinna með uppgötvun. Það var mögulegt að breyta ljósi í gögn. Með því sýndi hann fram á að innan tíðar mætti taka ljósmyndir án filmu. Fyrirlestur hans, fullur eldmóðs, hlaut dræmar undirtektir. Þar stóð hann frammi fyrir stjórnendum Kodak. Þeir skynjuðu ekki straum tímans.
Á síðustu árum hefur þessari sögu skotið niður í kollinn á mér þegar ég velti fyrir mér stefnu Toyota, enda virtist lengi vel sem fyrirtækið hefði ekki kveikt nægilega snemma á perunni varðandi þá byltingu sem var handan við hornið – rafvæðing bílamarkaðarins. Eitt gekk þó aldrei upp í útreikningum mínum. Hvernig gat það verið að fyrirtækið sem langt á undan öllum öðrum, áratugum, fór að leggja þunga áherslu á tvinntæknina, sem einmitt hagnýtir rafmagn í samspili við sprengihreyfilinn, hefði ekki áttað sig á þeim breytingum sem í vændum voru? Gat verið að snillingar, með staðreyndirnar fyrir framan nefið á sér, hefðu misreiknað sig svo herfilega?
Þessar vangaveltur fengu að velkjast lengi um, jafnvel á sama tíma og ég átti þess kost oftar en einu sinni að taka viðtöl við stjórnendur í efstu lögum stjórnendahóps fyrirtækisins. Og þær grasseruðu kannski ekki síst vegna þess að menningin á vettvangi Toyota er alls ekki sú að gaspra um það sem ekki er orðið að veruleika. Sjaldnast boðar fyrirtækið nýjungar langt fram í tímann. Það mætti halda því fram að einkunnarorð þess séu „látum verkin tala“.
Og sú ágæta regla hefur sannarlega átt við þegar kemur að rafvæðingunni miklu. Nú hefur fyrirtækið eitthvað að sýna og þá eru þungavopnin dregin fram.
Í desember síðastliðnum boðaði Akio Toyoda til blaðamannafundar. Þar kynnti forstjórinn til sögunnar 12 nýja rafbíla sem eru komnir mislangt á þróunarbrautinni. Tímasetningin var engin tilviljun enda fyrsti hreini rafbíllinn úr verksmiðjum fyrirtækisins tekinn að berast um heiminn. Innan tíðar lendir hann einnig hér.
Þar er á ferðinni bZ4X sem er ný vörulína, vísar hún í „beyond zero“ eða umfram núll. Á sú vísun að vitna um að fyrirtækið ætlar sér alla leið í orkuskiptunum og að markmiðið sé ekki aðeins að ná kolefnishlutleysi heldur stíga skrefinu lengra. Á ráðstefnu á vegum Toyota, sem haldin var skammt utan við Brussel undir lok síðasta árs, fékk ég tækifæri til að berja þennan nýjasta fák japanska framleiðandans augum, heillaðist ég af því hvernig fyrirtækinu hefur tekist að þróa, hanna og framleiða bíl sem er eitthvað alveg nýtt, en á sama tíma svo augljóslega náskyldur öðrum tegundum í Toyota-fjölskyldunni.
Verðmiðinn á bílnum hefur ekki verið gefinn upp, en ef marka má það sem maður hefur heyrt pískrað um það er ekki ósennilegt að Toyota muni fljótt raka upp talsverðri markaðshlutdeild á rafbílamarkaðnum, ekki síst í hópi þeirra sem þurfa á meðalstórum jepplingi að halda með drægni upp á ríflega 400 km. Um mitt árið er von á fyrstu bílunum til landsins og er fyrirtækið nú þegar farið að taka við forpöntunum. Á næstu misserum mun fyrirtækið svo kynna fleiri rafbíla í fjölbreyttum stærðarflokkum til leiks. Akio gekk raunar svo langt á fundinum undir lok árs að hann lofaði 30 nýjum tegundum úr smiðju Toyota og Lexus fram til ársins 2030. Það er því flest sem bendir til þess að það verði úr ýmsu spennandi að velja frá fyrirtækinu á komandi árum.
En þótt fyrsta og sennilega mikilvægasta skrefið hafi nú verið stigið, og margt spennandi í hönnunarferli, er ljóst að risavaxið verkefni bíður Toyota. Samkeppnin í þessum nýja veruleika er gríðarleg og margt sem spilar þar inn í sem fyrirtækin hafa ekki fengist við áður.
Tengist það ekki síst framleiðslu rafhlaðna sem eru, eðli máls samkvæmt, einn mikilvægasti hlekkurinn í aðfangakeðju rafbílaframleiðenda. Þar ætti Toyota þó að hafa ákveðið forskot vegna þess rafbúnaðar sem fylgt hefur Prius í áratugi. Þá hefur Toyota einnig verið óhrætt við að efna til samstarfs við aðra risa, m.a. Subaru og BYD í Kína.
Nú þegar japanski risinn hefur rumskað má segja að stóri slagurinn sé hafinn fyrir alvöru. Hið ótrúlega er að hann verður ekki síst háður við bílaframleiðanda sem var stofnaður 2003 og hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar verið afskrifaður. Það er eins með bíl- og mannheimana. Enginn veit hver annan grefur.
Þessi grein birtist upphaflega í Rafbílablaði Morgunblaðsins 28/01.