Miðaldafræðingar flykkjast til Íslands

Háskóli Íslands, aðalbygging
Háskóli Íslands, aðalbygging mbl.is/Ómar Óskarsson

Von er á nær 500 erlendum gestum á stóra miðaldafræðiráðstefnu sem haldin verður við Háskóla Íslands dagana 16.-20. júlí. Um er að ræða alþjóðlega ráðstefnu miðaldafræðinga sem haldin er annað hvert ár og hefur jafnan verið til skiptis í Bandaríkjunum og Englandi. Nú verður hins vegar brugðið út af hefðinni og ráðstefnan verður haldin á Íslandi í fyrsta sinn.

Ráðstefnan er haldin á vegum New Chaucer Society, virts alþjóðlegs fræðafélags á sviði miðaldafræða, en gestgjafar eru Hugvísindasvið og Hugvísindastofnun. Sem fyrr segir er von á um 500 gestum og er það metfjöldi á ráðstefnunni, en reiknað var með 300 gestum upphaflega.

Gestirnir koma hvaðanæva að, meðal annars frá Bandaríkjunum, Evrópu, Ástralíu og Japan. Innsendar tillögur að fyrirlestrum slöguðu hátt í 700 en á ráðstefnunni verða rúmlega 400 fyrirlestrar auk veggspjaldakynninga og handritanámskeiðs fyrir doktorsnema sem haldið verður í tengslum við ráðstefnuna 15. júlí. Allt endurspeglar þetta mikinn áhuga á þinginu.

Skipulagsnefnd ráðstefnunnar samanstendur af Sif Ríkharðsdóttur, lektor í almennri bókmenntafræði (formaður), Ármanni Jakobssyni, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda, Haraldi Bernharðssyni, dósent í miðaldafræðum, og Margréti Guðmundsdóttur, verkefnastjóra Hugvísindastofnunar.

Í fréttatilkynningu segir að ráðstefnan veiti gullið tækifæri til að efla samstarf yfir menningarmörk og kynna háskólann sem öflugan rannsóknarháskóla á sviði miðaldafræða. Ráðstefnan er liður í stefnu Háskóla Íslands að efla vísindastarf á sviði miðalda og að halda áfram uppbyggingu háskólans í alþjóðlegu samstarfi á sviðinu.

Styrktaraðilar sem koma að ráðstefnunni eru Stofnun Árna Magnússonar, Reykjavíkurborg, Bókmenntaborg og Hannesarholt auk þess sem forseti Hugvísindasviðs og rektor Háskóla Íslands hafa stutt hana dyggilega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert