Þakkaði þjóðinni traustið

Fagnað í miðbæ Reykjavíkur að liðin eru 35 ár síðan …
Fagnað í miðbæ Reykjavíkur að liðin eru 35 ár síðan þjóðin valdi Vigdísi Finnbogadóttur í embætti forseta Íslands. Þórður Arnar Þórðarson

„Margur fær fyrir lítið lof og last fyrir ekkert.“ svona hljóðuðu upphafsorð ávarps Vigdísar Finnbogadóttur á hátíðarhöldum í miðborg Reykjavíkur í kvöld þar sem því var fagnað að 35 ár eru liðin frá því að hún var kjörin forseti Íslands.

Sjá frétt mbl.is: Vigdísi fagnað í miðborginni

Morgunsólin lýsti upp kjark þjóðarinnar

„Það eru fyrst og fremst við Íslendingar sem eigum minningardag um þessi mánaðarmót um að hafa brotið blað í heimssögunni. Ég dáist af því hversu margir hafa komið hingað að fagna saman í rigningunni, við Íslendingar saman.“

Vigdís rifjaði upp morguninn eftir að hún hafði verið kjörin forseti árið 1980.

„Auðvitað leitar hugurinn alltaf til þeirra tímamóta sem við erum hér að minnast. Ég man það eins og það hafi gerst í gær.“

„Þetta var eitthvað nýstárlegt sem ég hafði ekki áttað mig á sjálf. Kjarkurinn að vera fyrst í heimssögunni til að kjósa sér kvenmann sem forseta. Það var þennan kjark sem morgunsólin lýsti upp þennan morguninn. Kjarkur íslensku þjóðarinnar að hafa af áræðni gengið gegn ríkjandi viðhorfi þjóða og voru á svipsstundu komnir á forsíður heimsblaðanna.“

Sjá frétt mbl.is: „Þökkum þér fyrir að ganga fremst“

Tungumálið færir okkur minningar aldanna

Vigdís sagðist vera þjóðinni afar þakklát, bæði á meðan hún var forseti og á árunum eftir forsetatíð hennar. 

„Ég er innilega stolt af minni þjóð og þakka fyrir að hún hafi treyst mér til að gegna embætti í 16 ár. Það er langur tími. Ég er líka afar þakklát þjóðinni vegna þess hversu stolt ég get verið að henni. Lýðræði, sögu hennar og varðveislu íslenskrar tungu sem ásamt ættjörðinni gerir okkur að þjóð. Ég er þakklát fyrr að hafa fæðst í þessu landi og fyrir að hafa fengið að vera Íslendingur.“

Hún segir Íslendinga búa við margt sem okkur þykir sjálfsagt, en er það ekki annars staðar.

„Ósnortin víðerni og hálendi Íslands. Tungumálið sem hefur fært okkur minningar aldanna svo við vitum glöggt hver við erum og hvar við erum stödd í veröldinni.“

Hún beindi svo ræðu sinni að unga fólkinu.

„Þið eruð framtíðin. Aldrei hefur sú kynslóð sem hefur tekið við framtíð landsins verið eins menntuð og nú og aldrei víðsýnni. Það er mikilvægt að menntun og víðsýni sé nýtt til uppbyggingar hér sem og annars staðar,“ sagði Vigdís áður en fólksfjöldinn fagnaði ákaft þessum orðum hennar.

Hún skaut þá inn í: „Það er gott að heyra að vel sé hlustað,“ og uppskar mikla kátínu viðstaddra.

„Ég þakka fyrir mig. Hér má mér einnig leyfast að þakka Háskóla Íslands fyrir að hafa safnað saman öllum tungumálum sem kennd eru við skólann undir einn hatt undir mínu nafni, stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Þetta er glæsileg stofnun sem allir munu heimsækja þegar fram líða stundir. Allir sem heimsækja Íslands munu skoða stofnunina því hún geymir eitthvað sem allir þekkja. Tungumál.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert