Af Twitter í ljóðabók

Eydís Blöndal gefur út sína fyrstu ljóðabók á föstudaginn nk.
Eydís Blöndal gefur út sína fyrstu ljóðabók á föstudaginn nk. mbl.is/Styrmir Kári

„Fyrir mér er ljóð það að taka erfiða tilfinningu og þjappa henni saman í stuttan og hnitmiðaðan texta sem hittir lesandann í hjartastað,“ segir ljóðskáldið Eydís Blöndal, sem á föstudag gefur út sína fyrstu ljóðabók; Tíst og bast.

Eydís er 21 árs gömul og nemi í verkfræðilegri eðlisfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur skrifað ljóð síðan hún man eftir sér, en segir það yfirleitt hafa verið ómeðvitað. „Þau bara einhvern veginn vella upp úr mér,“ segir hún og hlær. Einkunnarorð sín segir hún vera hispursleysi, húmor og hreinskilni, en í bókinni lýsir hún oft á tíðum erfiðum tilfinningum á kómískan hátt.

Ljóð Eydísar hafa vakið töluverða athygli á Twitter, þar sem hún hefur reglulega birt þau, og segir hún heiti bókarinnar einmitt vísa til þess. „Bókin heitir Tíst og bast og þar er ég að vísa til Twitter, en svo er bókin líka á tvist og bast því ég fer um víðan völl,“ útskýrir hún. Þá segist hún vera lítið fyrir hefðbundin ljóð, en flest ljóðanna í bókinni séu stutt og hnitmiðuð og minni því á tíst. „Sumt er samt of persónulegt og alvarlegt til að setja á Twitter því maður er með gríngrímu þar, svo þeir sem lesa bókina munu eflaust fá nýja sýn á mig,“ segir Eydís.

„Eydís! Þú verður að gefa út ljóðabók“

Eydís skrifaði ljóð sín lengi vel í dagbækur sínar, sem hún hefur haldið úti í fjölda ára, en hugmyndin að bókinni kviknaði þegar hún fór að sýna fólki ljóðin. „Ég fór að senda vinkonu minni ljóðin, en hún hefur líka verið að skrifa, og fór að setja nokkur á Twitter og svo sagði þessi vinkona mín við mig: „Eydís! Þú verður að gefa út ljóðabók,“ svo ég hugsaði mér að það væri bara frekar góð hugmynd.“

Eydís segist hafa verið staðráðin í því að fylgja hugmyndinni eftir, þar sem of margar hugmyndir verði að engu vegna þess að fólk framkvæmir þær ekki. Í kjölfarið komst hún í samband við útgáfufélagið Lús og stuttu síðar var hugmyndin að bókinni komin í framkvæmd.

Gerir grín að eigin tilfinningum

Ljóð Eydísar sem lýsa erfiðum tilfinningum eru oft kómísk, en þannig segist hún gera grín að eigin tilfinningum eða þeim aðstæðum sem hún er komin í. Aðspurð hvort þetta hjálpi henni við að vinna úr tilfinningunum svarar hún játandi. „Mér líður alltaf betur ef ég geng í gegnum eitthvað erfitt og sem svo geggjað ljóð um það,“ segir hún og brosir. „Þá nær maður að taka tilfinningarnar sínar og setja þær á blað og hugsa rökrétt um þær. Þegar ég byrja að skrifa um eitthvað er eins og ljóðið leiði mig áfram í því að hugsa hvað tilfinningin er að segja mér. Ég leyfi ljóðinu að taka stýrið og ef ég er til dæmis reið eða leið en veit ekki af hverju þá segir ljóðið mér af hverju ég er að finna þessar tilfinningar.“

„Ég var til dæmis að ganga í gegnum sambandsslit í vor og sat á Súfistanum þar sem ég skrifaði átta ljóð á einum klukkutíma. Þau ullu bara upp úr mér og fóru út um allt. Vinkona mín sem hvatti mig til að gefa út bókina segir einmitt alltaf við mig: „Það er ekkert eins gott fyrir ljóðskáld og eitt stykki ástarsorg“.“

Hún segir þetta kristallast í því að nú, þegar henni líður vel, eigi hún í stökustu vandræðum með að skrifa ljóð. „Nú er líf mitt frekar fínt og ég get ekki samið ljóð, en þegar eitthvað erfitt er í gangi get ég ekki hætt,“ segir hún og bætir við að þess vegna séu flest sönglög í heiminum um eitthvað sorglegt.

Er ekki upptekin af ljóðforminu

Eydís hefur skrifað dagbók síðan hún var 8 ára gömul og gerir enn. Hún segir skrifin hafa gert það að verkum að hún sé orðin þjálfuð í að hugsa um tilfinningar sínar og setja þær niður á blað, sem geti útskýrt það hvers vegna hún eigi svo auðvelt með að skrifa ljóð. Þá hefur hún alltaf haft mikinn áhuga á ljóðlist og fannst til að mynda mjög gaman að læra um ljóð í grunnskóla. Mikið vatn hefur þó runnið til sjávar, og segist hún minna upptekin af stuðlum, höfuðstöðvum og víxlrími og hún var þá.

„Manni er alltaf kennt að það er eitthvað „rétt“ ljóðform og ef maður geri eitthvað annað en það sé maður að skrifa skrýtið ljóð. Mér finnst ljóð ekki þurfa að vera með víxlrími og fara eftir öllum þessum reglum. Mér finnst ljóð frekar vera að taka flóknar tilfinningar og koma þeim í eitthvað stutt eins og ljóð,“ segir Eydís og bætir við að sjálf eigi hún auðveldara með að útskýra tilfinningar sínar í gegnum ljóð en á annan hátt. „Vinir mínir sjá til dæmis yfirleitt betur hvernig mér líður ef ég sendi þeim bara ljóð í stað þess að ég reyni að útskýra tilfinningar mínar.“

Eydís segir eitt ljóð í bókinni ríma af viti, en hún samdi það árið 2010 um fyrstu ástarsorgina sína. „Þá fannst mér þetta allt mjög heilagt; erindin eru fjórar línur, það er víxlrím, stuðlar og höfuðstafir,“ segir hún. „Núna er það meira þannig að ég gubba þessu á blað og er ekki að festa mig í formi.“

Getur varla lesið sum ljóðin í bókinni

Aðspurð um það hvort henni þyki vænna um einhver ljóð í bókinni en önnur svarar Eydís játandi. „Sum ljóðin eru uppáhöldin mín en ég segi engum frá því. Ég les stundum ljóðin og þau vekja upp tilfinningar sem ég fann þegar ég skrifaði þau. Ég man til dæmis að ég var uppi í rúmi þegar ég skrifaði eitt ljóðið, en var hamingjusöm að labba út í strætóskýli þegar ég skrifaði annað. Sum get ég varla lesið því þau rifja upp svo sterkar og erfiðar tilfinningar,“ segir hún.

Þá segir Eydís vini sína nokkuð sammála um hvaða ljóð er flottast í bókinni, en þar sem þau viti ekki hver tilfinningin var á bakvið hvert ljóð sé hennar túlkun önnur. „Þau upplifa ljóðin bara eins og þau gera og það á auðvitað að vera þannig, en það getur alveg verið „röng túlkun“ miðað við hvað ég var að hugsa þegar ég skrifaði þau. En það er líka einmitt fegurðin bak við ljóð; allir upplifa þau út frá eigin reynslu.

Þá segist hún einnig hafa fengið móður sína og eiginmann hennar til að lesa bókina, sem hafi verið erfiðara en hún hélt. „Þetta er svo rosalega persónulegt að það var pínu erfitt. En þeim fannst þetta æðislegt og það var gaman að sjá það því þau eru af annarri kynslóð en ljóðin virtust samt falla í kramið.“

Vonast til að áhugi ungu kynslóðarinnar á ljóðlist aukist

Eydís segist vonast til þess að áhugi hennar kynslóðar á ljóðlist muni aukast, en segir áhugaleysið oft liggja í því að flest skáld séu töluvert eldri en hún. „Það eru margir sem halda að ljóð séu leiðinleg því þau skilja þau ekki, en í raun og veru skilja þau bara ekki kynslóðina sem skrifaði ljóðin. Það vantar að ungt fólk skrifi líka ljóð svo annað ungt fólk geti fengið eitthvað til að tengja við, og ég vona að ég sé að gera það með þessari bók.“

Þá segist hún sjálf kunna best að meta stutt ljóð. „Þegar ég les ljóð eftir skáld hugsa ég að ef þau geti ekki skrifað flott ljóð sem eru stutt þá nenni ég ekki að lesa löngu ljóðin,“ segir hún, en bætir við að oft geti verið gott að lesa ljóð og kafa í tilfinningum annarra til að vinna úr sínum eigin. „Maður kemst ekki nær hjartanu á ókunnugu fólki en að lesa ljóðin þeirra.“

Útilokar ekki fleiri ljóðabækur í framtíðinni

Eydís segist vel geta hugsað sér að gefa út fleiri ljóðabækur í framtíðinni. „Ég get reyndar ekki skrifað núna þar sem það er ekkert að gerast í lífi mínu,“ segir hún og hlær, en útilokar ekki frekari útgáfu. 

Bókin kemur út á föstudaginn nk. 28. ágúst og mun Eydís halda útgáfuhóf í Máli og menningu á Laugavegi klukkan 18 sama dag. Bókin verður til sölu í Máli og menningu í kjölfarið, og einnig í Eymundsson.

Margrét Aðalheiður Önnu-og Þorgeirsdóttir vinkona Eydísar teiknaði kápu bókarinnar.
Margrét Aðalheiður Önnu-og Þorgeirsdóttir vinkona Eydísar teiknaði kápu bókarinnar. ljósmynd/Eydís Blöndal
Eydís segir ljóð sín vera mjög kómísk, þrátt fyrir að …
Eydís segir ljóð sín vera mjög kómísk, þrátt fyrir að þau lýsi oft á tíðum erfiðum tilfinningum. mbl.is/Styrmir Kári
Eydís getur vel hugsað sér að gefa út fleiri ljóðabækur.
Eydís getur vel hugsað sér að gefa út fleiri ljóðabækur. mbl.is/Styrmir Kári
Ljóðin hjálpa Eydísi oft að vinna úr tilfinningum sínum.
Ljóðin hjálpa Eydísi oft að vinna úr tilfinningum sínum. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert