92% treysta Landhelgisgæslunni

Varðskipið Týr.
Varðskipið Týr. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Landhelgisgæslan nýtur trausts 92% landsmanna samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Gallup á trausti til stofnana samfélagsins. Þetta er mesti stuðningur sem Gæslan hefur notið til þessa en hún nýtur mests trausts þeirra stofnana sem kannaðar voru. Eykst traust til hennar um 11% frá síðustu könnun Gallup um sama efni.

Lögreglan er í öðru sæti á listanum, en 74% treysta henni, og þar á eftir kemur Háskóli Íslands með 72%. Fram kemur í fréttatilkynningu að traust í garð lögreglunnar hafi ekki mælst lægri í áratug. Í fjórða sæti er embætti forseta Íslands en 57% treysta því sem er hækkun um 14% frá síðustu könnun. Þá kemur Umboðsmaður Alþingis með 52%, ríkissaksóknari með 51% og ríkissáttasemjari með 48%.

Heilbrigðiskerfið nýtur trausts 46% landsmanna og lækkar um 14% frá fyrri könnun. Rúmlega 39% treysta Þjóðkirkjunni og 32% dómskerfinu en traust til þess minnkar um 11%. Seðlabankinn nýtur trausts 29% landsmanna, embætti umboðsmanns skuldara er treyst af 28%, Fjármálaeftirlitinu af 22%, borgarstjórn Reykjavíkur treysta 19% (lækkar um 12%), Alþingi 17% og bankakerfið nýtur traust 12% landsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert