Team Spark heldur utan

Team Spark er kappaksturslið Háskóla Íslands sem í vetur hefur …
Team Spark er kappaksturslið Háskóla Íslands sem í vetur hefur hannað og smíðað rafknúinn kappakstursbíl fyrir stærstu alþjóðlegu verkfræðinemakeppni í heimi, Formula Student. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Team Spark, lið verkfræðinema við Háskóla Íslands, heldur utan í vikunni til að taka þátt í tveimur Formula Student kappaksturs- og hönnunarmótum verkfræðinema í Englandi og á Ítalíu.  Liðið hefur hannað og smíðað rafknúinn kappakstursbíl fyrir mótin.

Bíllinn ber nafnið TS16 og hefur verið í hönnun og smíði frá því í fyrrahaust. Bíllinn var frumsýndur á Háskólatorgi hinn 7.  apríl síðastliðinn en hönnun hans byggist á hönnun TS15, kappakstursbíls sem lið síðasta árs fór með á Silverstone-kappakstursbrautina í Englandi í fyrra. Allnokkrar breytingar voru þó gerðar á milli ára, t.d. þróaðir vængir eða „spoilerar“ á bílinn og kraftur hans aukinn, en þess má geta að nemendurnir fá hluta af vinnu sinni metna í námi sínu í verkfræði við Háskóla Íslands, segir í fréttatilkynningu frá HÍ.

Liðið hefur haft í nógu að snúast frá afhjúpun bílsins í apríl, m.a. við æfingaakstur á Kvartmílubrautinni og frekari endurbætur á bílnum. Liðið náði m.a. því markmiði sínu að keyra bílinn 100 km á Íslandi áður en hann var sendur með gámi til Englands.

Etja kappi við 130 lið

Lið frá Háskólanum hefur tekið þátt í Formula Student á Silverstone frá árinu 2011 og ætíð lagt áherslu á rafknúinn kappakstursbíl. Keppnin er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum en yfir 130 háskólalið frá 30 löndum er skráð til leiks í ár og því er ljóst að samkeppnin verður afar hörð. Keppt er í tveimur flokkum í Formula Student. Í flokki 1 eru lið dæmd út frá bæði hönnun einstakra hluta bílsins og akstri hans á kappakstursbraut en í flokki 2 eru hönnun og áætlanir kynntar en ekki er keppt í kappakstri. Team Spark hyggst keppa í flokki 1 líkt og tvö undanfarin ár.

Formula Student-keppnin á Silverstone stendur yfir dagana 14.-17. júlí en þaðan stefnir Team Spark á Varano de' Melegari nærri Parma á Ítalíu þar sem liðið hyggst taka þátt í Formula SAE Italy í fyrsta sinn, en keppnin fer fram helgina 22.-25. júlí. Alls fer um 40 manna hópur Team Spark-liða til Bretlands og um 30 þeirra halda svo áfram til Ítalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert